Áhorfendum á frumsýningu sögulega hefndartryllisins The Nightingale í Ástralíu nú um helgina, ofbauð svo það sem þeir sáu, að þeir gengu út úr bíósalnum eftir aðeins 20 mínútur. Það sem olli þessu voru atriði þar sem sýnt var ofbeldi gegn konum og börnum.
Myndin, sem er leikstýrt af Jennifer Kent, gerist á 18. öld og segir sögu hinnar 21 árs gömlu sakakonu Clare, sem leikin er af Aisling Franciosi, sem ferðast ásamt leiðsögumanni af ætt frumbyggja, í gegnum óbyggðir Tansaníu til að leita hefnda gagnvart breskum höfuðsmanni og hermönnum hans sem frömdu voðaverk á fjölskyldu hennar.
Myndin var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Sydney. Fullt var út úr dyrum í Ritz bíósalnum sem tekur 1.000 manns í sæti.
Samkvæmt News.Com.Au, þá heyrðist kona í salnum kalla „henni hefur nú þegar verið nauðgað, við þurfum ekki að horfa á það aftur!“ þegar þriðja nauðgunaratriðið birtist á fyrstu 20 mínútunum.
Nokkrir áhorfendur deildu áliti sínu á samskiptavefnum Twitter eftir sýninguna.
Gagnrýnendur hafa einnig verið neikvæðir í garð myndarinnar, samkvæmt vef The Independent, einkum er varðar kynferðislegt og annað líkamlegt ofbeldi í myndinni.
Í gagnrýni sinni fyrir The New York Post, sagði Johnny Oleksinski til dæmis: „Að pakka stanslausum nauðgunum, drápum og barsmíðum inn í tveggja tíma mynd, er óþarflega harðneskjulegt, og kemur niður á persónuuppbyggingu og söguþræði. Það að þurfa stöðugt að halda fyrir augun vegna hrollvekjandi myndefnisins – eins og reyndin var á sýningu myndarinnar á Sundance kvikmyndahátíðinni – virðist ganga í berhögg við tilgang myndarinnar.“
FilmEra gagnrýnandinn Chris Short kallaði The Nightingale „þreytandi og gríðarlega móðgandi skot framhjá markinu.“
„Ef við vorum ekki meðvituð um grimmdarverk breskra hermanna um alla nýlenduna þá þegar, þá vorum við það klárlega eftir fjórða nauðgunaratriðið. Hvað þá eftir það fimmta og sjötta?“
Grét gegnum allt ferlið
Kent, sem áður hefur leikstýrt hrollvekjunni The Babadook, sagði við First Showing að það hefði verið erfitt að gera myndina. „‘Hún ýtti mér algjörlega fram á brúnina sem manneskju. Allir á tökustað geta vitnað um það.“
Í spurningatíma ( e. Q&A) sagðist hún skilja vel viðbrögð áhorfenda, en sagði einnig að henni hafi fundist nauðsynlegt að hafa slík atriði í myndinni, til að draga ekkert undan, og sýna hvernig ofbeldi var beitt á þessum tíma í mannkynssögunni.
Hún sagði að það hefði valdið henni miklu hugarangri að kvikmynda myndina, og hún hafi grátið í gegnum allt ferlið.