Ag­atha Christi­e á japönskum hasar­sterum

Hrað­skreiðasta lest veraldar þeytist milli Tokyo og Kyoto sem sögu­svið þessarar súrrealísku en bráð­skemmti­legu hasar­myndar sem í upp­hafi virkar dá­lítið eins og ein­hvers konar spennu­myndar­út­gáfa af rómantísku gaman­myndinni Love Actu­ally.

David Leitch, sem er þekktastur fyrir Dea­dpool 2, leik­stýrir Bul­let Train, þar sem hann teflir fram hópi leikara sem standa sig heilt yfir vel og virðast hafa notið sín vel við gerð myndarinnar.

Brad Pitt fer hrein­lega á kostum og virðist skemmta sér konung­lega í aðal­hlut­verkinu sem sein­heppinn fyrrum laun­morðingi sem gengur undir dul­nefninu Maríu­bjalla. Lestar­ferðin er varla hafin þegar hann lendir í hörku­vand­ræðum með, að því er virtist, það ein­falda verk­efni að sækja eina tösku um borð í ó­merki­lega hrað­lest.

Ekki er annað að sjá en aðrir leikarar hafi einnig skemmt sér konung­lega og finni sinn takt í þeim létt­úðuga og oft og tíðum jafn­vel einum of sturlaða tón sem sleginn er í myndinni. Aaron Taylor-John­son og Brian Tyree Henry eru stór­skemmti­legir sem morðóðir breskir sprelli­gosar sem gegna dul­nefnum úr á­vaxta­ríkinu, á meðan Joey King fær á­horf­endur til að halda ýmist með sér eða á móti út myndina, í hlut­verki enn eins leigu­morðingjans.

Hand­rit myndarinnar byggir á japönsku skáld­sögunni Maria Beet­le sem hentar á­gæt­lega til síns brúks og sögu­þráðurinn minnir á klassíska skáld­sögu eftir Agöthu Christi­e, nema með miklu meira blóði, húmor og bulli.

Fram­vindan er því ekkert of flókin en nægi­lega rugluð fyrir hasar­mynd á borð við þessa og Bul­let Train er nefni­lega, þótt hún sé á köflum undar­leg, hasar­mynd og sem slík ekki endi­lega allra því hún tekur sig heldur ekkert sér­stak­lega al­var­lega, sem gæti farið í taugarnar á al­vöru­gefnustu bíó­gestunum.

Sturlunin fer þannig sí­fellt stig­vaxandi eftir því sem á líður myndina og sýran verður sterkari og sterkari. Þess vegna verður loka­hluti myndarinnar að mati undir­ritaðs ei­lítið of lang­dreginn og leik­stjóri og hand­rits­höfundur hafa mögu­lega einum of mikla trú á skemmtana­gildi sögunnar. Sá kengur kemur hins vegar alls ekki í veg fyrir að mælt sé með því að sjá Bul­let Train í bíó.

Niður­staða: Bul­let Train er stór­skemmti­leg mynd sem tekur sig alls ekki al­var­lega en vit­leysan gæti aftur á móti reynst sumum um megn enda verður loka­hnykkurinn að­eins of lang­dreginn þótt skemmti­gildið sé ó­um­deilt.

Oddur Ævar Gunnarsson

odduraevar@frettabladid.is