Hraðskreiðasta lest veraldar þeytist milli Tokyo og Kyoto sem sögusvið þessarar súrrealísku en bráðskemmtilegu hasarmyndar sem í upphafi virkar dálítið eins og einhvers konar spennumyndarútgáfa af rómantísku gamanmyndinni Love Actually.
David Leitch, sem er þekktastur fyrir Deadpool 2, leikstýrir Bullet Train, þar sem hann teflir fram hópi leikara sem standa sig heilt yfir vel og virðast hafa notið sín vel við gerð myndarinnar.
Brad Pitt fer hreinlega á kostum og virðist skemmta sér konunglega í aðalhlutverkinu sem seinheppinn fyrrum launmorðingi sem gengur undir dulnefninu Maríubjalla. Lestarferðin er varla hafin þegar hann lendir í hörkuvandræðum með, að því er virtist, það einfalda verkefni að sækja eina tösku um borð í ómerkilega hraðlest.
Ekki er annað að sjá en aðrir leikarar hafi einnig skemmt sér konunglega og finni sinn takt í þeim léttúðuga og oft og tíðum jafnvel einum of sturlaða tón sem sleginn er í myndinni. Aaron Taylor-Johnson og Brian Tyree Henry eru stórskemmtilegir sem morðóðir breskir sprelligosar sem gegna dulnefnum úr ávaxtaríkinu, á meðan Joey King fær áhorfendur til að halda ýmist með sér eða á móti út myndina, í hlutverki enn eins leigumorðingjans.
Handrit myndarinnar byggir á japönsku skáldsögunni Maria Beetle sem hentar ágætlega til síns brúks og söguþráðurinn minnir á klassíska skáldsögu eftir Agöthu Christie, nema með miklu meira blóði, húmor og bulli.
Framvindan er því ekkert of flókin en nægilega rugluð fyrir hasarmynd á borð við þessa og Bullet Train er nefnilega, þótt hún sé á köflum undarleg, hasarmynd og sem slík ekki endilega allra því hún tekur sig heldur ekkert sérstaklega alvarlega, sem gæti farið í taugarnar á alvörugefnustu bíógestunum.
Sturlunin fer þannig sífellt stigvaxandi eftir því sem á líður myndina og sýran verður sterkari og sterkari. Þess vegna verður lokahluti myndarinnar að mati undirritaðs eilítið of langdreginn og leikstjóri og handritshöfundur hafa mögulega einum of mikla trú á skemmtanagildi sögunnar. Sá kengur kemur hins vegar alls ekki í veg fyrir að mælt sé með því að sjá Bullet Train í bíó.
Niðurstaða: Bullet Train er stórskemmtileg mynd sem tekur sig alls ekki alvarlega en vitleysan gæti aftur á móti reynst sumum um megn enda verður lokahnykkurinn aðeins of langdreginn þótt skemmtigildið sé óumdeilt.
Oddur Ævar Gunnarsson
odduraevar@frettabladid.is