Breska Carry On kvikmyndaserían, eða Áfram-myndirnar, eins og þær voru kallaðar hér á Íslandi, gætu verið að ganga í endurnýjun lífdaga, eftir 27 ára baráttu um réttinn á vörumerkinu. Nú hinsvegar verða myndirnar gerðar samkvæmt pólitískum réttrúnaði okkar tíma.
Frá þessu er sagt á vefsíðunni Chortle.
Brian Baker, vinur framleiðanda upprunalegu seríunnar, Peter Rogers, hefur eytt níu árum og 500 þúsund sterlingspundum, til að fá leyfi frá ITV sjónvarpsstöðinni til að nota vörumerkið.
Nú hefur hann fengið rétt til að selja vörur með vörumerkinu á, og hann vonast til að safna nægu fé til að fjármagna fyrstu nýju myndina, eða þá fyrstu síðan Carry On Columbus var frumsýnd árið 1992.
ITV stöðin gaf eftir hvað varðar notkun vörumerkisins á vörum, en heldur áfram réttinum yfir kvikmyndaframleiðslunni. En fyrirtækið hefur þó gefið hinum 72 ára gamla Baker leyfi til að gera kvikmynd með Áfram nafninu ef hann getur.
Baker segist eiga þrjú tilbúin handrit, þar á meðal eitt sem kallast Carry On London, sem var skrifað árið 2006, og hefur lengi átt að vera fyrsta endurkomumynd seríunnar. „Þessi ákvörðun þýðir að við getum haldið á lofti arfleifð Peter Rogers, og ræst vélarnar á ný.“
Í samtali við Daily Mail sagði Baker: „Við ætlum að fá inn nýja leikara, með sínar eigin sérvisku og persónueinkenni. Þeir munum uppfæra seríuna til nútímans. Við verðum að vera nær pólitískum réttrúnaði dagsins í dag.“
ITV hefur enn traustatak á Carry On vörumerkinu, og heldur áfram að selja hinar gömlu sígildu myndir.
Talsmaður ITV sagði: „ITV hefur nú þegar gefið Baker leyfi til að nota vörumerkið í nýju myndirnar hans. Það gerðist árið 2016. Við vitum að almenningur í Bretlandi ann Carry On, og við fögnum hverjum þeim sem vill halda þessu dáða vörumerki á lofti.“