Youtube vídeógerðarmennirnir The Fine Brothers létu 10 eldri borgara nýlega horfa á stiklu og upptöku úr leiknum ( Gameplay) Call of Duty: Black Ops 2, tóku síðan upp viðbrögð fólksins, og lögðu síðan fyrir það spurningar eftir á. Fyrirfram gæti maður haldið að fólkið yrði neikvætt, enda er leikurinn ofbeldisfullur skotleikur, en svo var í raun ekki, eins og sést ef maður horfir á myndbandið hér að neðan:
Eins og sést í myndbandinu eru viðbrögðin á ýmsa lund. Einn segir að leikurinn sé hvorki hentugur fyrir börn, né fullorðna. Aðrir sögðu að leikurinn gæti þjálfað fólk til að drepa. Einn sagði að leikurinn væri góð leið til að útskýra fyrir börnum muninn á raunverulegu og sýndarofbeldi.
Þá segir einn þátttakandinn, í lauslegri þýðingu: „Hvort leikurinn er við hæfi barna, er það foreldranna að ákveða. Sonur minn átti loftbyssu þegar hann var sex ára. Ég lét hann lofa mér því að skjóta ekki systur sína. Hann hlýddi mér og skaut aldrei systur sína. Ég segi samt eins og er, að ég þekki systur hans og þetta útheimti mikinn sjálfsaga hjá drengnum.“
Sumir þátttakendur lýstu síðan yfir áhuga á að spila leikinn þegar hann kemur út síðar í þessum mánuði, en fáir vildu mæla með að kaupa leikinn fyrir börn. Einn afinn viðurkenndi að barnabörnin hans, hlustuðu reyndar lítt á hans ráðleggingar í þessum efnum.