Hávær orðrómur hefur verið uppi um að leikstjórinn J.J. Abrams ætli að hætta við að leikstýra Star Wars VII. Ástæðan er sögð vera að hann sé ekki tilbúinn að fara til Bretlands til að taka upp myndina, þar sem slíkt myndi þýða of mikið rót á hans persónulegu högum, enda býr fjölskylda hans í Bandaríkjunum. Leikstjórinn hefur aldrei tekið upp myndir utan Bandaríkjanna.
Orðrómurinn hefur verið svo megn að Lucasfilm ltd., sem framleiðir Star Wars myndirnar, sá ástæðu til að senda frá sér opinbera yfirlýsingu vegna málsins:
„Það er ekkert til í þessum orðrómi,“ byrjar yfirlýsingin. „J.J. skemmtir sér konunglega við handritsvinnuna og hlakkar til að hefja tökur á næsta ári.“
Star Wars: Episode VII verður frumsýnd árið 2015.