Vince Vaughn, sem við erum vanari að sjá í gamanhlutverkum en í drama- eða hasarmyndum, hefur tekið að sér hlutverk í dramamyndinni Brawl In Cell Block 99.
S. Craig Zahler, sem gerði hina hrottafengnu og blóðugu Bone Tomahawk, sem ekki hefur enn verið sýnd hér á Íslandi, er leikstjóri myndarinnar sem fjallar um fyrrum hnefaleikamann ( Vaughn ) sem er á leið niður í ræsið. Hann er búinn að missa vinnuna á bílaverkstæði og hjónabandið hangir á bláþræði. Síðasta hálmstráið er starf sem hann tekur að sér fyrir gamlan vin sinn, sem burðardýr fyrir eiturlyf. Þetta lagar fjárhagsstöðu hans, en á móti þá setur hann sig í umtalsverða hættu, og endar á því að lenda í byssubardaga á milli lögreglunnar og mannanna sem hann er að vinna með.
Honum er í kjölfarið hent í steininn, en þar þarf hann vera á varðbergi því óvinir hans vilja hann feigan.
Tökur myndarinnar eiga að hefjast síðar á þessu ári samkvæmt Empire kvikmyndaritinu, eða um leið og betri mynd er komin á leikhópinn.
Vaughn lék fyrir ekki svo löngu síðan í annarri þáttaröð sjónvarpsþáttanna True Detective, og leikur einnig í nýju Mel Gibson myndinni Hacksaw Ridge. Þá leikur hann í myndinni Term Life sem frumsýnd verður nú í vikunni í Bandaríkjunum.