Öll sek um það góða sem við gerðum ekki

Heimaey er ný íslensk-portúgölsk þáttaröð um morðrannsókn í Vestmannaeyjum sem tekur fljótt á sig myrkari hliðar eins og þáttunum er líst á vef Símans, en röðin er einmitt aðgengileg í streymisveitunni Sjónvarpi Símans Premium og hóf göngu sína 20. nóvember sl.

Eins og sjá má er tagline þáttaraðarinnar; „Við erum öll sek um það góða sem við gerðum ekki“, hvað sem það nú þýðir, en við komumst líklega fljótt að því með því að horfa á seríuna.

Snúið mál

Heimaey fjallar um Maríu Santon, sem er portúgalskur innflytjandi. Þegar hún finnst myrt fer samfélagið á hliðina í Vestmannaeyjum. Lögreglukonan Soffía kemur frá Reykjavík til að rannsaka málið en hún er ættuð frá Vestmannaeyjum. Fljótlega áttar hún sig á því að málið er snúnara en hún gerði sér grein fyrir.

Þegar Soffía og rannsóknarfélagi hennar, Mattý, kafa dýpra í málið, fellur grunurinn á fyrrverandi eiginmann Maríu sem heitir Alex. Óvænt endurkoma hans til Íslands vekur spurningar og óútskýrð hegðun hans gerir hann grunsamlegan. Málið tekur á sig myrkari hliðar þegar upp kemst um hættulegan smyglhring sem tengist eyjunni.

Þegar Soffía afhjúpar vef lyga, svika og glæpa, þarf hún að horfast í augu við skelfilega möguleika þess að sonur hennar er flæktur í málið.

Portúgalskan áskorun

Í samtali við Eyjafréttir segir leikstjórinn að það hafi verið helsta áskorunin að leikstýra á portúgölsku því hann kunni bara að segja hæ og takk. „En portúgölsku leikararnir voru svo yndisleg í samstarfi og þetta gekk eins og í sögu. Núna kann ég nokkur orð í viðbót,“ segir leikstjórinn við Eyjafréttir en þættirnir voru að hluta teknir í Vestmannaeyjum.

„Ég held þó að það verði langt þangað til ég eyði aftur mörgum dögum á Stórhöfða við kvikmyndatökur. Það er einn fallegasti staður landsins en veðrið þar getur verið alveg hræðilegt. Heimamaður sagði mér að þetta væri topp 3 vindasamasti staður á jörðinni. Ég trúi því,“ bætir Arnór við í samtalinu við Eyjafréttir.

Elska eyjarnar

Portúgölsku leikkonurnar Catarina Rebelo og Maria João Bastos eru í stórum hlutverkum í seríunni.

Þær segja í samtali við Morgunblaðið, spurðar að því hvernig þeim hafi þótt að vera í Vestmannaeyjum, að þær hafi elskað það og nefna landslagið, birtuna og orkuna, en segja einnig að eyjan sé líklega vindasamasti staður í heimi.

„Það var kalt!,“ segja þær við Morgunblaðið.

„Á einum degi fengum við rigningu, snjó og sól; allt í senn, en það var stórkostlegt,“ segir Catarina í samtalinu.

Spurðar að því hvort þær hafi verið að frjósa á settinu segir Maria að þegar hún lék í dauðasenunni hafi verið ansi kalt. „[…] en hér er allt tökuliðið vel undirbúið og ég var í mörgum lögum af fötum. Ég hef alveg þjáðst meira í senum í Portúgal,“ segir Maria við Morgunblaðið.

Glassriver framleiðir

Glassriver er íslenskur framleiðandi þáttanna. Arnór Pálmi Arnarson leikstýrir og handritshöfundar eru Sveinbjörn I. Baldvinsson, Elías Helgi Kofed-Hansen, Joana Andrade og Filipa Poppe.

Með helstu hlutverk fara Kristín Þóra Haraldsdóttir, Anna Svava Knútsdóttir, Catarina Rebelo, Viktor Benóný Benediktsson, María Jaoa Bastos, Ivo Canelas, Cleia Almeida, Örn Gauti Jóhannsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Maruo Hermínio, Joao Villias-Boas, Rui Morisson, Styrmir Steinn Gestsson, Andre Vonport og Arnfinnur Þór Jónsson.

Sjáðu plakat og stiklu hér fyrir neðan: