„Tímarnir hafa breyst en ég sagði alltaf áður; Ef þú ætlar að koma þér eitthvað fyrir í þessum bransa þarna úti [í Hollywood] þá tekur það 10 ár.”
Þetta segir Sigurjón Sighvatsson, athafnamaður, þekktur kvikmyndaframleiðandi og næsti gestur Loga Bergmanns í næsta þætti af Með Loga. Í viðtalinu fer Sigurjón yfir víðan völl og ræðir ferilinn, hvatann, tengslanet, peningamál og hin ýmsu verkefni þar sem hann gegndi hlutverki framleiðanda. Á meðal þeirra eru stórvinsælar sjónvarpsseríur á borð við Beverly Hills 90210 og Twin Peaks frá David Lynch, sem báðar umbyltu bandarískri sjónvarpsþáttagerð og hófu göngu sína á sama ári.
Þegar sýningar fyrst hófust á Beverly Hills 90210, í október árið 1990, þóttu áhorfstölur dræmar og tók sinn tíma fyrir umtalið að komast á flug. Það var svo ári síðar þar sem hlaut gífurlegra vinsælda og lauk síðustu þáttaröðinni árið 2000.
Sigurjón segir þó að lítill áhugi hafi verið fyrir 90210 hjá samstarfsmönnum hans, en framleiðandinn kveðst hafa alla tíð heillast að melódrama í sjónvarpi og ekki síst sápuóperum. Þá bætir hann við að ýmsir greiðar frá fólki sem vann við Twin Peaks hafi orðið til þess að Beverly Hills varð að veruleika.
„Við vorum byrjaðir að taka upp Twin Peaks, sem allir vildu vera með í. Það voru þættir sem brutu ákveðið blað, sem fólk vissi strax, en það vildi enginn í mínu fyrirtæki taka að sér Beverly Hills,“ segir hann.
Breyttu miklu í Hollywood
Að sögn Sigurjóns bauðst honum og samstarfsfólki hans þennan þátt upphaflega vegna margra tónlistarmyndbanda sem þeir höfðu framleitt fyrir MTV. „Allir í bransanum héldu að við vissum hvað unglingarnir vildu, sem ég veit ekki hvort hafi verið rétt.“ segir Sigurjón.
Ég var sá eini og hugsaði með mér: „Ég fíla þetta!“…
„Mér fannst þetta ótrúlega spennandi. Öllum fannst þetta óttalega lélegt. Það var einn yfirmaður minn sem studdi þetta, en svo fékk ég rosalega mikið af greiðum frá fólki sem vann við Twin Peaks. Þetta fólk studdi Beverly Hills,“ segir Sigurjón. „Báðir þessir þættir höfðu grundvallaráhrif í Hollywood og breyttu ýmsu.“
Viðtalið við Sigurjón má finna í heild sinni í Sjónvarpi Símans Premium á fimmtudag og verður sýndur sama dag línulegri dagskrá kl. 20:10.