50 þúsund gestir á kvikmyndir.is á mánuði

Það gleður okkur aðstandendur kvikmyndir.is að segja frá því að aðsókn að vefnum hefur aukist talsvert síðustu vikur og mánuði, og sækja nú um 15 þúsund manns síðuna í hverri viku. Þegar horft er til aðsóknar yfir heilan mánuð sækja 50 þúsund notendur sér upplýsingar á síðuna á því tímabili.

Dagblöðin hætt að birta tíma

Ein ástæða aukningarinnar er að öllum líkindum sú að bíóauglýsingar eru nú ekki lengur birtar í stóru dagblöðunum tveimur, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, þar sem bíóhúsin auglýstu daglega alla tíð að segja má. Fólk flykkist nú í staðinn á netið til að fá þessar upplýsingar, en ein lykilstarfsemi kvikmyndir.is er einmitt að birta á skilmerkilegan hátt upplýsingar um sýningartíma kvikmynda í íslenskum bíóhúsum.

Joker er ein vinsælasta kvikmyndin í bíó þessa dagana.

Við sem vinnum á kvikmyndir.is frá degi til dags fögnum þessari þróun. Það er enda mun meiri þjónusta sem vefur eins og kvikmyndir.is getur veitt bíógestum en hægt er að veita í dagblaði. Á kvikmyndir.is er til dæmis hægt að lesa söguþráð kvikmyndar, horfa á sýnishorn, skoða leikara og aðstandendur, bannmerkingar, lengd mynda, og margt margt fleira, auk þess sem tengdar fréttir birtast, IMDB einkunn og Rotten Tomatoes einkunnir, svo stiklað sér á stóru. Þá er hægt að skoða hvað er væntanlegt í bíó og á VOD.

Maleficent kom ný í bíó fyrir helgi.

Það er líka gaman að bera saman aðsókn á kvikmyndir.is og annarra íslenskra vefmiðla, en ef borin er saman aðsókn kvikmyndir.is og vefmiðla í topplista – mælingu hjá Gallup, og hægt er að sjá á netinu, þá erum við í dag ellefti stærsti vefmiðill landsins.

Appið sækir í sig veðrið einnig

Þó að meirihluti notenda kvikmyndir.is noti snjallsímann til að skoða vefsíðuna, þá fjölgar þeim nú hratt sem nota kvikmyndir.is appið, sem er einkar aðgengilegt. Þúsundir hafa náð í appið á Android og iPhone nú þegar, og virkir notendur í hverjum mánuði eru ríflega þrjú þúsund talsins.

Í appinu er hægt að skoða sýningartíma, stiklur, fréttir, væntanlegar myndir, og sjá leikara, IMDB einkunn og margt fleira, ásamt því sem hægt er að sjálfsögðu að kaupa miða með því að smella á sýningartímana. Appið er í stöðugri þróun en von er á þriðju stóru uppfærslu forritsins innan skamms.

Fréttabréf er einnig sent út vikulega, sem hægt er að gerast áskrifandi að með því að smella hér.

Spennandi tímar framundan

Sindri Bergmann þróunarstjóri og einn eigenda kvikmyndir.is segir að það séu spennandi tímar framundan. „Við viljum gefa fólki eins góðar, ítarlega og aðgengilegar upplýsingar og nokkur kostur er á hverjum tíma. Við leggjum mikinn metnað í vefinn og appið, og munum kynna spennandi nýjungar í appinu síðar í vetur, ásamt því að þróa vefinn áfram.“