Disney kvikmyndin Maleficent með Angelina Jolie í aðalhlutverkinu, hlutverki hinnar illu nornar Maleficent, var góð skemmtun á sínum tíma, en myndin var frumsýnd fyrir fimm árum, sumarið 2014. Það er því fagnaðarefni að línur eru nú farnar að skýrast fyrir framhaldið, Maleficent 2, auk þess sem nú er komið í ljós að við fáum myndina fyrr í bíó en áður hafði verið áætlað.
Maleficent sló í gegn í miðasölunni um allan heim, en tekjur myndarinnar námu litlum 750 milljónum bandaríkjadala.
Það var því líklega ekki erfið ákvörðun fyrir Disney að gera framhaldsmynd. Upphaflega átti að frumsýna kvikmyndina 29. maí árið 2020, en nú hefur þeim áætlunum verið breytt, og frumsýna á kvikmyndina 18. október á þessu ári!
Að auki hafa framleiðendur nú sent frá sér glænýtt plakat, þar sem Angelina Jolie sést í allri sinni dýrð í titilhlutverkinu. Þá hefur heiti myndarinnar verið opinberað: Maleficent: Mistress of Evil.
Eins og fyrr sagði mun Jolie endurtaka leikinn í hlutverki Maleficent, en Elle Fanning mun leika Aurora prinsessu. Söguþráður er enn á huldu. Leikstjóri er Joachim Rønning, sem leikstýrði síðast Pirates of the Caribbean: Salazar´s Revenge.
Sjáðu nýja plakatið hér fyrir neðan: