Fyrsta stiklan úr íslensk-amerísku hrollvekjunni Child Eater var frumsýnd í dag, en myndin verður Evrópufrumsýnd í Bíó Paradís þann 28. október næstkomandi, eða helgina fyrir hrekkjavöku.
Í tilkynningu frá Bíó paradís segir að frumsýningin á Íslandi komi í kjölfar heimsfrumsýningar myndarinnar á Brooklyn Horror Film Festival 16. október, þar sem Child Eater verði lokamynd hátíðarinnar
Leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar er Erlingur Óttar Thoroddsen og er þetta hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Myndin er byggð á samnefndri stuttmynd hans sem hann gerði þegar hann var nemi við Columbia University í New York, og var sýnd á hátíðum á borð við SXSW, RIFF og New York Horror Film Festival.
Myndin fjallar um barnfóstruna Helen sem villist út í nærliggjandi skóg þegar barnið sem hún passar hverfur um miðja nótt. En þau eru ekki ein í skóginum …
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: