„Aðalleikkonan er ekki falleg"

Allar Star Wars myndirnar sex hafa verið teknar til sýninga á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Shanghai, þar af fyrstu þrjár myndirnar sem aldrei fyrr hafa verið sýndar í Kína.  star wars

Fyrsta myndin, Star Wars, fékk góð viðbrögð sýningargesta en ekki voru þó allir jafnsáttir: „Tæknibrellurnar eru ótrúlega góðar miðað við að hún var gerð 1977,“ skrifaði bíógesturinn Xiaosi Buxiang á kínversku vefsíðuna Douban. „En persónusköpunin er veik, aðalleikkonan er ekki falleg, aðalleikarinn er ekki myndarlegur og það er eins og börn séu að slást í hasaratriðunum.“

Samanlagt fékk myndin 8,3 í einkunn af 10 frá sýningargestum, auk þess sem hvorki fleiri né færri en 35 þúsund manns tjáðu sig um hana á vefsíðunni.

Hollywood-myndir voru sjaldgæfar í Kína á áttunda áratugnum. Fram til ársins 2002 voru aðeins 1.300 kvikmyndahús starfrækt í þessu fjölmennasta ríki veraldar. Núna eru þau orðin að minnsta kosti tíu sinnum fleiri, samkvæmt frétt The Guardian, og stefnir í að Kína taki fram úr Bandaríkjunum sem stærsta markaðssvæðið fyrir árið 2020.

Stikk: