Það má segja að móðir náttúra sé í aðalhlutverki í hamfaramyndinni Into the Storm sem frumsýnd er í kvöld. Myndin þykir afar vel gerð þar sem stanslaus spenna og mikill hasar fær áhorfendur til að grípa andann á lofti. Þótt íbúar bæjarins Silverton í Michigan viti vel að þeir megi eiga von á öflugum stormsveipum öðru hverju yfir sumarmánuðina dettur engum þeirra í hug það sem koma skal daginn sem útskriftarhátíð nemenda í háskóla bæjarins stendur fyrir dyrum.
Skyndilega byrjar að hvessa og rigna og innan nokkurra mínútna myndast yfir bænum öflugir skýstrokkar sem þeyta í byrjun öllu lauslegu upp í loft en ná fljótlega slíkum ofurstyrk að þeir taka að rífa í sig hús og önnur mannvirki þar sem fjöldi fólks hefur leitað skjóls. Þar með breytist undrun og skelfing íbúanna í æsispennandi lífsbaráttu og gríðarlegt kapphlaup við tímann og náttúruöflin.
Myndinni er leikstýrt af Stevens Quale, en hann hefur áður gert framhaldsmyndina The Final Destination 5 árið 2011. Með hlutverk í myndinni fara m.a. Sarah W. Callies, Richard Armitage, Jeremy Sumpter, Nathan Kress og Matt Walsh.
Into the Storm verður sýnd í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík, Ísafjarðarbíói, Selfossbíói og Bíóhöllinni Akranesi.