MPAA (Motion Picture Association of America) eru samtök í Bandaríkjunum sem setja aldurstakmörk á kvikmyndir og fara yfir auglýsingar og varning kvikmynda, þar á meðal kvikmyndaplaköt.
Fyrir stuttu var plakat fyrir framhaldsmyndina Sin City: A Dame To Kill For bannað af MPAA í Bandaríkjunum, um var að ræða plakat af leikkonunni Eva Green í hlutverki Ava Lord, en bannið var að þeirra mati vegna þess að brjóstið á henni sást of mikið í gegnum efnalítinn náttkjól.
Nýjasta bannið kemur einnig að nekt, en í þetta skipti vill MPAA meina að rassinn á austurríska leikaranum Christoph Waltz á plakatinu fyrir vísindaskáldskapinn, The Zero Theorem, særi mögulega blygðunarkennd fólks, en plakatið má sjá hér til vinstri.
Myndin fjallar um tölvuhakkara sem hefur það að markmiði að komast að ástæðunni fyrir tilvist mannsins, en hann er sífellt truflaður af Yfirstjórninni, og í þetta sinn þá senda þeir ungling og munúðarfulla konu til að trufla hann.
Christoph Waltz fer með aðalhlutverkið í myndinni og með önnur hlutverk fara Matt Damon, Emil Hostina, Dana Rogoz, Lucas Hedges, Mélanie Thierry, Ben Whishaw, Sanjeev Bhaskar og Tilda Swinton.