Kvikmyndaleikstjórinn sálugi Stanley Kubrick er af mörgum talin einn besti leikstjóri sögunnar og gerði hann myndir á borð við 2001: A Space Oddyssey, A Clockwork Orange, Barry Lyndon, The Shining og Full Metal Jacket.
Kubrick gerði sína fyrstu kvikmynd árið 1953 og hét hún Fear and Desire. Næsta mynd hans var Killer’s Kiss, og eftir að Kubrick gerði þá mynd, var hann talinn með allra efnilegustu leikstjórum. Kvikmyndin fékk einróma lof gagnrýnenda en því miður tóku gestir kvikmyndahúsanna ekki við sér.
Næstu tvö ár, gekk þess ungi, hæfileikaríki maður atvinnulaus. Þá skeði það, að Anthony Mann sem vann sem leikstjóri við upptöku stórmyndarinnar Spartacus hætti og Kubrick tók við. Tókst honum að gera afburða góða mynd um þrælinn Spartacus og eftir það lá leiðin upp á við. Eftir Spartacus gerði hann átta myndir, mjög ólíkar myndir. Allt frá stríðsmyndum til hrollvekju upp í ofbeldismyndir og hafa þær allar haft mikil áhrif á kvikmyndasöguna.
Þó að Kubrick hafi ekki verið mjög afkastamikill miðað við fjölda kvikmynda var hann oft að vinna að mörgum hugmyndum í einu og skildi hann eftir sig mörg ókláruð verk. Má þar nefna kvikmynd um Napoleon Bonaparte og sagði Steven Spielberg á sínum tíma að þetta hefði verið draumaverkefni Kubrick, en myndverin í Hollywood hefðu ekki viljað setja pening í það, jafnvel þó að Kubrick hafi lofað því í bréfi til yfirmanna kvikmyndavera árið 1971 að þetta yrði besta bíómynd hans.
Eins og frægt er orðið þá gerði Spielberg kvikmyndina A.I. árið 2001, en Kubrick gaf honum sérstakt leyfi rétt áður en hann lést á því að gera þá mynd eftir ókláruðu kvikmyndahandriti hans, en Kubrick hafði unnið að undirbúningsvinnu að þeirri mynd um árabil.
Í þessari heimildarmynd hér að neðan er farið í hvaða verk Kubrick vildi gera og hvers vegna þau voru aldrei gerð.