Hver kannast ekki við þessa senu: fegurðardís eltir þig á þyrlu, á meðan önnur situr við hliðina á þér í skínandi hvítri Lotus Esprit bifreið. Byssukúlur fljúga um loftið, vegurinn er á enda, og einhvernveginn þá þarft þú, James Bond, að redda þér út úr þessum erfiðu aðstæðum.
Þannig að þú einfaldlega ákveður að keyra útaf hafnarkantinum og ofaní sjóinn.
Þetta er sena úr James Bond myndinni The Spy Who Loved Me frá árinu 1977 með Roger Moore í hlutverki James Bond, og bíllinn var sérsmíðaður Lotus bíll sem gat breytt sér í kafbát.
Nú nýverið var bíllinn, sem notaður var í neðansjávarmyndatökum fyrir myndina, seldur á uppboði fyrir nærri eina milljón sterlingspunda, eða tæpar tvö hundruð milljónir íslenskra króna.
Salan var hluti af stóru bílauppboði RM Auctions í London um síðustu helgi. Fjöldi dýrra bíla skipti þar um hendur en Lotusinn var líklega sá þekktasti, að því er segir í frétt LA times.
Bíllinn var eina útgáfan sem virkaði ennþá, sem notaður var í myndinni, en alls voru tveir bílar smíðaðir að fullu, og sex skeljar að auki.
Enginn þeirra gat þó í rauninni það sama og bíllinn gerði í myndinni, þ.e. keyrt bæði á láði og legi.
Kaupandinn var nafnlaus.