Fyrsta kitlan er komin fyrir nýjustu mynd Harry Potter leikarans Daniel Radcliffe, Kill Your Darlings. Myndinni er leikstýrt af John Krokidas og var sýnd fyrst á Sundance kvikmyndahátíðinni í byrjun ársins.
Sjáðu kitluna hér fyrir neðan:
Myndin verður sýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum síðar í mánuðinum.
Í kitlunni sjáum við auk Radcliffe þá Dane DeHaan, Michael C. Hall og Ben Foster. Í myndinni leika einnig þau Jack Huston, David Cross, Jennifer Jason Leigh, Elizabeth Olsen, Kyra Sedgwick and John Cullum.
Myndin fjallar um upphafsár Beat kynslóðarinnar svokölluðu í Bandaríkjunum og sagt er frá því þegar skáldin Allen Ginsberg, sem Radcliffe leikur, og William S. Burroughs, sem Foster leikur, flækjast í alræmt morðmál þegar æskuvinur Burroughs, David Kammerer, er myrtur af manninum sem hann elskaði, Lucien Carr.
Fyrsta myndin sem Radcliffe lék í eftir Harry Potter var hryllingsmyndin The Woman in Black, en nú er auk þessarar myndar, væntanleg Radcliffe myndin, Horns, sem verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto í næsta mánuði.
Kill Your Darlings verður frumsýnd í almennum sýningum í Bandaríkjunum 18. október nk.