Eftir að hafa klætt sig í betri fötin fyrir kvikmyndina The Great Gatsby þá þarf Leonardo DiCaprio að endurnýja fataskápinn fyrir nýjasta hlutverk sitt, en hann hefur verið ráðinn til að leika dularfulla munkinn Grigori Rasputin.
DiCaprio heillaðist af handritinu sem einblínir á sálarástand Rasputin og hvernig hann tókst á við dauða bróður síns. Kvikmyndin verður framleidd af Warner Bros, með Kevin McCormick í fararbroddi. McCormick hefur áður framleitt myndir á borð við Gangster Squad og The Lucky One.
Saga Rasputin er stórmerkileg og fór hann m.a. til Sankti Pétursborgar snemma á 20. öld og sagðist vera helgur maður. Fljótlega átti hann stóran aðdáendahóp sem samanstóð aðallega af konum sem mændu í töfrandi augu hans. Hann fékk síðar starf sem persónulegur græðari keisarafjölskyldunar. Þar varð hann valdamikill maður og hafði mikil áhrif í Rússlandi, hann var svo myrtur af rússneskum aðalsmönnum aðfaranótt 30. desember 1916.