Eftir mikið kitl og twitter og Facebook tíst, þá er stiklan fyrir the Wolverine loksins komin út.
„Það er mér heiður að hitta the Wolverine.“ „Það er ekki sá sem ég er lengur,“ segir Hugh Jackman í hlutverki Wolverine í stiklunni.
Logan, þjáður af þeirri staðreynd að hann er ódauðlegur og í felum fyrir eigin ofurkrafti, virðist vera á flótta frá sjálfum sér í byrjun stiklunnar … en auðvitað er það þannig að þegar þú ert kominn með grjótharðar stálklær og fullt af fólki fer að sýna hæfileikum þínum áhuga, þá endist þessi feluleikur ekki lengi.
Leikstjóri myndarinnar, James Mangold, hefur oft talað um að Wolverine sé í byrjun myndarinnar búinn að missa sjónar á tilgangi lífsins, en spurningin er hvort hann finnur tilgang í lífinu eða dregst lengra niður í svartnætti tilverunnar.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan, en hún er einnig aðgengileg hér á vídeósíðu kvikmyndir.is
Söguþráður myndarinnar er þessi: Myndin er byggð á vinsælum teiknimyndasögum og fjallar um Wolverine, sem er einn þekktasti meðlimur hinna svokölluðu X-Men, og ævintýri hans í Japan.
Þar þarf hann að takast á við erkióvin sinn og berjast upp á líf og dauða, í bardaga sem mun breyta honum til frambúðar.
Líkamleg og tilfinningaleg mörk Wolverine eru þanin til hins ítrasta, og hann þarf að takast á við stórhættulegt samúræjastál, auk þess að eiga í innri baráttu sem snýr að hans eigin ódauðleika. Þetta verður til þess að hann vex og styrkist og verður sterkari en nokkru sinni fyrr.
Myndin kemur í bíó 26. júlí nk.