Hvíta húsið fellur (aftur) – Nýtt plakat

Nýtt plakat er komið fyrir myndina White House Down, en söguþráður myndarinnar er ekki ósvipaður sögunni í myndinni Olympus has Fallen, sem kom í bíó í Bandaríkjunum um síðustu helgi og gekk framar vonum.

Rétt eins og í Olympus Has Fallen þá ráðast illmenni á Hvíta húsið og fyrir tilviljun er hetja stödd í Hvíta húsinu sem allir verða að reiða sig á til að bjarga málum.

Sjáðu plakatið hér fyrir neðan:

Plakatið var fyrst birt á Facebook síðu myndarinnar í dag og tímasetningin kemur ekki á óvart. Bæði er verið að fara í kjölfarið á Olympus Has Fallen, ásamt því sem von er á fyrstu stiklunni úr myndinni seinna í kvöld.

White House Down er lýst sem „Die Hard í Hvíta húsinu“ og í henni leikur Channing Tatum hlutverk John Cale, lögreglumanns sem ákveður einn daginn að fara í kynnisferð um Hvíta húsið ásamt ungri dóttur sinni. Allt fer síðan á annan endann þegar þrautþjálfaður herflokkur ræðst inn í húsið og hernemur það. John þarf nú ekki einungis að gæta að eigin lífi og dóttur sinnar, heldur þarf hann að vernda forseta Bandaríkjanna líka, sem leikinn er af Jamie Foxx.

Aðrir leikarar eru Jason Clarke, Maggie Gyllenhaal, James Woods, Rachelle Lefevre, Richard Jenkins og Jimmi Simpson en myndin kemur í bíó í Bandaríkjunum og á Íslandi 28. júní nk.

Leikstjóri er stórmyndaleikstjórinn Roland Emmerich sem frægur er fyrir myndir eins og Independence Day og 2001.