Universal kvikmyndaverið hefur áhuga á að gera framhald af hrollvekjunni Mama sem framleidd er af Guillermo del Toro, en myndin sú fór langt fram úr væntingum í aðsókn í Bandaríkjunum nú í byrjun ársins og hefur þénað um 90 milljónir Bandaríkjadala frá því hún var frumsýnd, en framleiðslukostnaður var einungis 15 milljónir dala.
Dave Cosse hjá Universal segir í samtali við ScreenDaily að áhugi sé fyrir hendi: „Við teljum að það sé möguleiki á að gera þetta að seríu,“ og bætti svo við: „Við myndum vilja gera aðra mynd. En viðræður eru enn á byrjunarstigi.“
Sjáðu stikluna úr Mama hér fyrir neðan:
Mama segir sögu af tveimur litlum stúlkum sem hverfa inn í skóg daginn sem foreldrar þeirra eru myrtir. Þegar þeim er bjargað nokkrum árum síðar og byrja nýtt líf, þá er eins og eitthvað eða einhver vilji enn koma til að svæfa þær á kvöldin.
Leikstjóri myndarinnar er Andres Muschietti og hin Óskarstilnefnda Jessica Chastain úr Zero Dark Thirty leikur aðalhlutverkið.