Mátturinn er greinilega mjög sterkur með þeim Mark Hamill og Carrie Fisher, sem léku Loga Geimgengil og Leiu prinsessu í fyrstu þremur Star Wars myndunum.
Þau fengu að vita það strax í ágúst sl. , á undan öllum öðrum, að til stæði að gera þrjár nýjar Star Wars myndir, þ.e. Episode 7, 8 og 9.
Samkvæmt Entertainment Weekly tímaritinu var það sjálfur George Lucas skapari Star Wars, sem lét þau vita af því þetta snemma, hvað stæði til.
Þau kunna greinilega að þegja yfir leyndarmáli!
„Hann sagði okkur frá þessu síðasta sumar að hann vildi gera [Episode] 7,8 og 9,“ sagði Hamill í samtali við blaðið.
Hann segir að Lucas hafi fært þeim fréttirnar yfir hádegisverði sem þau þrjú áttu síðsumars. „Hann bauð okkur út að borða og ég hélt að hann ætlaði að segja okkur frá því að hann væri að fara að setjast í helgan stein, eða ætlaði að ræða Star Wars sjónvarpsþættina sem ég hafði heyrt um … þannig að þegar hann sagði „Við ætlum að gera Episode 7,8 og 9, þá varð ég algjörlega steinhissa og sagði „Hvað? Ertu búinn að tapa glórunni?!“
Hamill, sem er 61 árs gamall, segist í samtalinu við blaðið hafa blendnar tilfinningar til kaupa Disney á Lucasfilm, en sé að venjast hugmyndinni.