Næstu 2 Bondmyndir í vinnslu

Nú þegar Skyfall, nýjasta James Bond myndin, hefur verið frumsýnd, er ekki úr vegi að skoða hvaða verkefni tekur við hjá njósnaranum.

Samkvæmt frétt í breska blaðinu The Guardian er búið að ákveða að næsta mynd verði byggð á sögu í tveimur hlutum og verði eftir handritshöfund myndarinnar Hugo, John Logan. Logan, sem var einn af handritshöfundum Skyfall ásamt þeim Neal Purvis og Robert Wade, sem ætla að setjast í helgan stein, var ráðinn til að hafa yfirumsjón með handritum Bond mynda númer 24 og 25, eftir að hafa komið með hugmynd að sögu myndanna til James Bond framleiðendanna, þeirra Barbara Broccoli og Michael Wilson. Eins og flestar síðustu Bond myndir, að Casino Royale undanskilinni, þá verða næstu tvær myndir ekki byggðar á neinni sérstakri bók Ian Flemings, höfundar James Bond, en Casino Royale og Quantum of Solace eru einu myndirnar hingað til sem eru með söguþræði sem tengjast, eins og segir í fréttinni í The Guardian.

Auk þess að hafa skrifað Óskarsverðlaunamynd Martin Scorsese, Hugo, þá hefur Logan skrifað Gladiator, The Aviator og Óskarsverðlaunamyndina Rango.

Fréttir herma að Craig hafi nú þegar skrifað undir samning um að leika James Bond í tveimur myndum til viðbótar.

Stikk: