Keppa við Jessicu Simpson um alþjóðleg verðlaun

Íslenski raunveruleikaþátturinn Hannað fyrir Ísland, eða Design for Iceland eins og hann heitir á ensku, er kominn í úrslit á alþjóðlegu format-verðlaunahátíðinni C21 Media International Format Awards 2012 en meðal annarra þátta sem komnir eru í úrslit er hinn þekkti bandaríski hönnunarþáttur Fashion Star þar sem söng og leikkonan Jessica Simpson situr í dómarasæti.

 

Fyrir þá sem ekki vita hvað hugtakið format þýðir, þá nær það yfir sjónvarpsþætti sem eru með fyrirfram ákveðna uppbyggingu óháð því hvar þeir eru búnir til í heiminum. Sem dæmi um format-þætti eru American Idol, X Factor og MasterChef.

Hannað fyrir Ísland var framleiddur af Sagafilm og frumsýndur á Stöð 2 í mars á þessu ári.

Keppa í tveimur flokkum af sjö

Í tilkynningu frá Sagafilm segir að Hannað fyrir Ísland hafi fyrst tekið þátt í samkeppni á netinu ásamt fjöldamörgum öðrum þáttum frá öllum heimshornum. Fimm vinsælustu þættirnir í hverjum flokki eftir netkosningu komust síðan í undanúrslit en Hannað fyrir Ísland keppir í tveimur flokkum af sjö. Annars vegar sem besta raunveruleikaþáttar-format með áherslu á keppni (Best Competition Reality Format) og hins vegar besta format sem drifið er áfram af tilteknu vörumerki eða vörumerkjum (Best Brand Driven Format). Í báðum flokkum keppir Hannað fyrir Ísland við tískuþáttinn Fashion Star þar sem kynnir er engin önnur en ofurfyrirsætan Elle Macpherson og dómarar söngstjarnan Jessica Simpson, athafnakonan Nicole Richie og hönnuðurinn John Varvatos.

„Nú tekur nefnd virtra dómara við keflinu og ákveður hver sigrar í hverjum flokki. Sigurvegararnir verða svo tilkynntir við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 10. október í Cannes í Frakklandi,“ segir í tilkynningunni.

Vildu nýtískulegt útlit

Hannað fyrir Ísland er sjónvarpsþáttur þar sem íslenskir hönnuðir fengu að spreyta sig og nýta reynslu sína í að hanna bestu útivistarflíkur sem völ er á. Þátturinn var unninn í samstarfi við 66°Norður en rík áhersla var lögð á notagildi fatnaðarins ásamt því að nýtískulegt útlit var haft að leiðarljósi.

Níu hönnuðir hófu keppni í þættinum en að lokum stóð Birta Ísólfsdóttir uppi sem sigurvegari.