Skepnur suðursins villta fengu Gullna lundann

Aðalverðlaun Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík voru veitt með viðhöfn í Hörpu í gærkvöldi. Aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullni lundinn, voru veitt myndinni Skepnur suðursins villta (Beasts of the Southern Wild) eftir bandaríska leikstjórann Benh Zeitlin. „Með ástríðu sögumannsins, frumlegri sjónrænni útfærslu og listrænni dirfsku skipar Benh Zeitlin sér með Skepnum suðursins villta í fremstu röð óháðra kvikmyndagerðarmanna,“ stendur í umsögn dómnefndar.

Gagnrýnendaverðlaun FIPRESCI voru veitt myndinni Smástirni (Starlet) eftir bandaríska leikstjórann Sean Baker.

Kvikmyndaverðlaun kirkjunnar voru veitt myndinni Nágrannar Guðs (Ha-Masgihim) eftir ísraelska leikstjórann Meni Yaesh.

Áhorfendaverðlaun, sem kosið var um á mbl.is, runnu til myndarinnar Drottningin af Montreuil (Queen of Montreuil) eftir Sólveigu Anspach.

Umhverfisverðlaun voru veitt mynd úr flokknum „Önnur framtíð“ og runnu til myndarinnar ¡Vivan las Antipodas! eftir leikstjórann Viktor Kossakovsky.

Besta íslenska stuttmyndin fékk verðlaun í nafni Thors Vilhjálmssonar. Stuttmyndin Segldúkur (Sailcloth) eftir leikstjórann Elfar Aðalsteins varð hlutskörpust.

Gullna eggið var veitt mynd þátttakanda í Kvikmyndasmiðju RIFF (Talent Lab). Mynd Bretans Matthew Hammett Knott, Á þessari eyju (On this Island), fékk verðlaunin.

Allar verðlaunamyndirnar á RIFF, auk vinsælustu mynda hátíðarinnar, verða sýndar í dag og í kvöld. Lokamynd RIFF verður sýnd kl. 20:15 í Háskólabíói. Það er nýjasta mynd Thomas Vinterberg, Jagten (The Hunt).

Í tilkynningu frá RIFF segir að næsta skref að þessari hátíð lokinni sé að fara til Rómar á Ítalíu, en RIFF í Róm kvikmyndahátíðin fer fram dagana 29. okt til 1. nóv. Þar verða sýndar 12 myndir, flestar íslenskar.