Það var bara tímaspursmál um hvenær Dreamworks teiknimyndastúdíóið myndi átta sig á því að það væri ekki vitlaus hugmynd að gefa persónunni sem stal senunni í Sherk-seríunni sína eigin bíómynd. Flestir áhorfendur sem eru ekki krakkar voru löngu farnir að taka eftir því að myndirnar með græna tröllinu voru byrjaðar að þreytast örlítið. Þessar „spin-off“ myndir eru sjaldan eitthvað til þess að verða spenntur yfir, en Puss in Boots er eitthvað sem þurfti að gerast.
Stígvélaði kötturinn í þessum heimi er náttúrulega bara Zorro fyrir börn (og fullorða sem finnst gaman að flippuðum húmor) og er það augljóslega sérsniðið fyrir Antonio Banderas, því þetta leyfir honum að gera það sem hann hefur margoft gert áður, í einu formi eða öðru. Banderas er getur verið fyrirmyndar leikari, sérstaklega á móðurmáli sínu, en þegar hann er enskumælandi er ekki hægt að segja að fjölbreytnin sé sterkasta spilið hans. En þótt hann geri sama hlutinn oft í mismunandi hlutverkum, þá er ekki annað hægt að segja en að hann sé þrusugóður í því, nánast alltaf viðkunnanlegur og oftar en ekki fyndinn. Maðurinn er löngu búinn að eigna sér Puss in Boots-fígúruna. Þetta er snilldarkarakter sem erfitt er að fá leið á. Ég elska hversu göfugur, óttalaus, krúttlegur (jesús, já!) og sjarmerandi hann getur verið en samt hegðað sér eins og alvöru kettir gera. Því miður er þó nokkuð takmarkað sem hægt er fyrir góða persónu að gera til að bjarga handriti sem hittir ekki reglulega í mark og í þessu tilviki er ýmislegt sem kemur í veg fyrir malandi hrifningu mína.
Rosalega er ég samt feginn að þessi mynd skuli vera töluvert skemmtilegri og fyndnari heldur en seinustu tvær Shrek-myndirnar, en þrátt fyrir það þjáist hún heldur fyrir veikt handrit og þar að auki byrjar húmorinn að missa dampinn áður en fyrri helmingurinn er búinn. Fyrstu senurnar eru æðislegar; svakalega fyndnar og hlaðnar orku. Restin hefur sína spretti og með mislöngu millibili en þegar sagan komst á skrið fór mér að finnast hún fljótt sífellt minna spennandi. Aukapersónurnar eru heldur ekki einhverjar sem tolla lengi í minninu eftir áhorfið (og ég er með gott minni!). Meira að segja var þessi sem Salma Hayek talsetti asnalega lík klækjótta tálkvendinu sem Penélope Cruz lék í síðustu Pirates-mynd (nema, jú, bara köttur) enda karakter sem er beint unnin úr hundgömlum prófíl. Neikvæðu þættirnir skemma samt ekki fyrir afþreyingargildi myndarinnar, en það helst þokkalega á floti út 90 mínúturnar. Það er meiriháttar erfitt að sýna ekki teiknimynd einhvern smá áhuga þegar hún er svona skemmtilega og líflega teiknuð. Útlitið er ljómandi flott og andinn alltaf passlega hress.
Myndinni er leikstýrt af reyndum raddleikara að nafni Chris Miller, sem var einnig annar af tveimur leikstjórum myndarinnar Cloudy with a Chance of Meatballs. Hinn heitir Phil Lord. Þeir sem hafa enn ekki séð þá mynd (á ensku helst) eru að missa af missa af einni steiktustu teiknimynd síðari ára. En hefði Lord kannski leikstýrt Puss in Boots með þessum félaga sínum, þar sem húmor þeirra beggja myndi sameinast, þá hefði hún getað skilið dýpri spor eftir sig. Annars geta krakkar, unglingar, foreldrar, Spánverjar og ekki síst kattarunnendur glaðst yfir þessari skemmtilegu en furðulega auðgleymdu spin-off mynd. Leiðinlegt að framúrskarandi Dreamworks-teiknimyndirnar komi með svona svakalega löngu millibili. Það fer að koma tími á aðra slíka.
(6/10)
Hvernig fannst þér Puss in Boots?