Kominn er trailer inn á kvikmyndir.is fyrir nýjustu mynd danska leikstjórans Lars Von Trier, Melancholia, en myndir Triers eru jafnan umdeildar og umtalaðar. Þessi mynd er þar engin undantekning en bæði Trier sjálfur og myndin gerðu allt vitlaust á síðustu Cannes hátíð. Eins og menn muna var Trier rekinn af hátíðinni fyrir ummæli um Hitler, nasista og Gyðinga.
Myndin hefur annars verið hlaðin lofi og Kirsten Dunst var valinn besta leikkonan á Cannes hátíðinni í ár.
Myndin segir frá sambandi systranna Justine (Kirsten Dunst) og Claire (Charlotte Gainsbourg). Justine er við það að ganga í heilagt hjónaband, en berst á sama tíma við streitu og mikið þunglyndi. Allt tekur síðan nýja stefnu þegar áður dulin reikistjarna ógnar lífi á jörðinni með yfirvofandi árekstri.
„Í myndinni tekst Trier á við eigið þunglyndi og þá kenningu að þunglyndir bregðist yfirvegaðra en aðrir við mjög stressandi augnablikum. Myndin er í senn tregafull og falleg, en hana mætti lýsa sem áferðafallegustu mynd Triers til þessa.“
Kirsten Dunst, Charlotte Gainsbourg og Kiefer Sutherland fara með aðalhlutverkin.
Smellið hér til að horfa á trailerinn.