Joe Sabie hefur undanfarin misseri búið til myndbönd fyrir tískutímaritið Vogue með 73 spurningum til frægs fólks. Í myndböndunum er spurningunum 73 dritað á viðmælendur og þeir fá lítinn tíma til að hugsa sig um, en þeir sem hafa lent í skothríðinni hingað til eru m.a. þau Reese Witherspoon, Daniel Radcliffe og Olivia Munn.
Nú er hinsvegar komið að sjálfri ofurfyrirsætunni Derek Zoolander, í túlkun Ben Stiller, en myndin Zoolander 2 er einmitt væntanleg í bíó hér á landi 19. febrúar nk.
Í myndbandinu fáum við, auk þess að hlusta á heimskuleg svör fyrirsætunnar, einnig einstakt tækifæri til að skoða glæsilegt heimili Zoolander, en þar er m.a. að finna risastóran líkamsræktarsal.
Zoolander 2 fjallar um þá félaga Derek Zoolander og Hansel, sem Owen Wilson leikur, 10 árum eftir atburðina í fyrri myndinni, en þeir eru ráðnir af Valentina, sem Penelope Cruz leikur, Interpol fulltrúa og fyrrum baðfatafyrirsætu, til að stöðva morðingja sem ætlar að drepa allt fallegasta fólkið í heiminum.
Aðrir helstu leikarar eru Usher Raymond, Demi Lovato og Miley Cyrus auk leikara úr fyrri myndinni þeim Will Ferrell (Mugatu), Christine Taylor (Matilda Jeffries), auk Cyrus Arnold, Fred Armisen, Kyle Mooney og Kristen Wiig.