Kynningarherferðir bíómynda fyrir Óskarsverðlaunahátíðina í febrúar nk. eru komnar á fullt skrið, en þar keppast menn við, með ýmsum aðferðum, að vekja athygli á sínum myndum í þeirri von að fá tilnefningu til þessara eftirsóttustu verðlauna í bransanum.
Tónlistarmaðurinn Pharrell Williams er til dæmis á miklu kynningarferðalagi þessa dagana til að kynna hið stórskemmtilega lag sitt Happy, úr myndinni Aulinn ég 2, eða Despicable Me 2.
Nú hefur hann sett á netið sólarhringslangt tónlistarmyndband, sem er sagt vera fyrsta sólarhringslanga tónlistarmyndbandið í sögunni.
Myndbandið var tekið á 11 dögum í Los Angeles á svokallaða Stedicam myndavél ( myndatökuliðið áætlar að það hafi gengið með vélarnar í tæpa 13 kílómetra á dag ). Í myndbandinu koma fram 400 manns, þar á meðal nokkrir frægir aðilar, eins og aðalleikari myndarinnar Steve Carell til dæmis og Miranda Cosgrove.
Williams sjálfur kemur fram í myndbandinu 24 sinnum, alltaf í byrjun hverrar klukkustundar, og síðan koma 14 aðrir aðilar á eftir.
Smelltu hér til að hlusta á myndbandið, og hér fyrir neðan er svo styttra dæmi: