Hvalfjörður, stuttmynd Guðmundar Arnar Guðmundssonar, heldur áfram að gera það gott á kvikmyndahátíðum heimsins, en nú síðast var Ágúst Örn B. Wigum valinn besti leikarinn á Brooklyn Film Festival.
Ágúst Örn er ungur og efnilegur leikari, fæddur árið 2002, og fer með annað aðalhlutverka myndarinnar. Auk þess hefur hann leikið aukahlutverk í Eldfjalli, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar.
Hvalfjörður var einnig valin besta myndin á Cinema dal Basso – Caserta Independent Film Festival sem fram fór í Caserta á Ítalíu.
Hvalfjörður, sem var frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni árið 2013 og hlaut þar sérstök dómnefndarverðlaun, hefur nú tekið þátt á gífurlegum fjölda kvikmyndahátíða, yfir 100 talsins, og unnið til 21 alþjóðlegra verðlauna á þeim. Auk þess var Hvalfjörður valin stuttmynd ársins á Edduverðlaununum 2014 og tilnefnd til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir bestu stuttmynd árið 2014.
Næstu hátíðir sem Hvalfjörður mun taka þátt á eru Por Caracoles hátíðin í Sevilla á Spáni og Basta Film Festival í Serbíu.