Árið 2013 fór streymisveitan Netflix að framleiða efni undir sínu eign nafni og hefur aukningin hefur verið stöðug síðustu misseri. Gífurlegur fjöldi sjónvarpsþátta, heimildaþátta, uppistanda og kvikmynda lenda reglulega á streyminu og er reynt eftir fremsta magni að sjá til þess að eitthvað sé í boði fyrir alla. Þetta segir Scott Stuber, forstjóri Netflix, í yfirlýsingu sem hann gaf út á dögunum og talar hann þar sérstaklega um kvikmyndadeildina.
„Við viljum gefa út eina stóra kvikmynd á tveggja vikna fresti. Fyrir einn hóp getur sú mynd verið til dæmis Extraction, fyrir annan er það The Wrong Missy,“ segir Stuber en birtar voru einnig tölur yfir vinsælustu kvikmyndir streymisins frá upphafi, eða frá árinu 2013 nánar til tekið.
Vert er að taka fram að neðangreindar tölur miðast við fjölda áhorfenda/notenda á fyrstu fjórum vikum eftir útgáfu. Þess ber einnig að geta að áhorfið er talið gilt ef notandi hefur spilað titilinn í tvær mínútur, að minnsta kosti.
Þetta eru 10 vinsælustu kvikmyndirnar sem framleiddar voru af Netflix
1. Extraction – 99(+) milljónir áhorfenda
Hasarveisla úr smiðju streymisins með Chris Hemsworth í hlutverki ofurmannlega málaliðans Tyler Rake. Í upphafi sögunnar er hann ráðinn í sína hættulegustu ferð til þessa, þar sem verkefni hans er að bjarga syni alþjóðlegs glæpaforingja, sem hefur verið rænt. Rake er öllu vanur og er bersýnilega með þeim betri í sínu fagi, en einhvers staðar verða takmörkin að liggja.
Extraction er skrifuð af öðrum helmingi Russo-bræðranna (The Winter Soldier, Infinity War, Endgame) og koma vinsældir myndarinnar ekki á óvart. Myndin var gefin út í apríl sl. og leið ekki á löngu þangað til gefið var grænt ljós á framhaldsmynd.
2. Bird Box – 89 milljónir
Bird Box, sem leikstýrt er af Susanne Bier, fjallar um móðurina Malorie (Sandra Bullock) sem fer um eyðilegt landslag, á flótta með tveimur börnum sínum, á sama tíma og mikil ógn veldur sjálfsmorðsfaraldi í heiminum. Handritið er eftir Eric Heisserer, sem tilnefndur var til Óskarsverðlauna fyrir Arrival, en hann skrifar handritið upp úr samnefndri skáldsögu Josh Malerman frá árinu 2014.
Þann 21. júlí næstkomandi verður framhaldssaga Malermans gefin út en bókin ber heitið Malorie og er nefnd eftir persónu Bullocks í Bird Box. Í framhaldinu tekur höfundurinn upp þráðinn þar sem frá var horfið en einnig hefur verið upplýst að sagan muni spanna rúm tíu ár.
3. Spenser Confidential – 85 milljónir
Mark Wahlberg og Winston Duke fara með aðalhlutverkin í þessari hasargamanmynd frá leikstjóranum Peter Berg, en þeir Wahlberg hafa áður unnið saman að myndunum Lone Survivor, Deepwater Horizon, Patriots Day og Mile 22. Spenser Confidential er lauslega byggð á bókinni Wonderland eftir Ace Atkins og verkum Roberts B. Parker.
4. 6 Underground – 83 milljónir
Þeir Ryan Reynolds og Michael Bay sameina krafta sína í þessari léttgeggjuðu hasarmynd, sem sögð er hafa kostað yfir 100 milljónir dollara í framleiðslu. Fjölmargir þekktir leikarar skjóta upp kollinum í aukahlutverkum og heldur leikstjórinn í fastar hefðir með sinn hraðskeiða stíl og furðulega húmor. Ekki beinlínis hámenningarlegt verk, en myndin hefur vafalaust náð að skemmta ófáum hasarfíklum.
5. Murder Mystery – 73 milljónir
Sjötta kvikmyndin sem grínarinn Adam Sandler vinnur að í samstarfi við streymiveituna og deilir hér skjánum með Jennifer Aniston í annað sinn. Saman höfðu þau áður leikið í myndinni Just Go with It frá árinu 2011 en í Murder Mystery leika þau par sem fer í langþráð frí til Evrópu. Þegar þangað er komið flækjast þau í kostulega og heldur óvenjulega morðgátu þar sem bæði liggja undir grun. Með önnur hlutverk fara David Walliams, Terence Stamp, Gemma Arterton, Luke Evans ásamt Ólafi Darra Ólafssyni.
Þess má geta að síðan Sandler hóf samstarfið við Netflix hefur verið horft á efni frá Sandler í hálfan milljarð klukkustunda.
6. The Irishman – 64 milljónir
Glæpaepík meistarans Martin Scorsese og líklegur svanasöngur hans í mafíugeiranum. Þetta er fyrsta kvikmynd leikstjórans sem fjármögnuð er af streymisveitu og er byggð á bókinni I Heard You Paint Houses sem fjallar um sögu skipulagðrar glæpastarfsemi í Bandaríkjunum. Fyrrum hermaðurinn Frank (The Irishman) Sheeran var lengst af leigumorðingi en sögusvið myndarinnar nær yfir nokkra áratugi.
Al Pacino leikur Hoffa og Robert De Niro Sheeran og að auki koma fram í myndinni Joe Pesci og Harvey Keitel og hafa þessir fjórir leikarar oft unnið með Scorsese. Einnig má nefna leikarana Ray Romano, Bobby Cannavale, Önnu Paquin og Stephen Graham. Myndin var í dýrari kantinum og hafa verið nefndar tölur allt frá 160 til 200 milljónir dollara, upphæðir sem oftast heyrast nefndar í sömu andrá og ofurhetjumyndir.
7. Triple Frontier – 63 milljónir
Spennumynd með þeim Ben Affleck, Oscar Isaac, Garrett Hedlund, Charlie Hunnam og Pedro Pascal í góðum gír. Segir hér frá fyrrum hermönnum sem sameinast um að skipuleggja rán gegn alræmdum glæpaforingja. Óskarsverðlaunahafinn Mark Boal (The Hurt Locker, Detroit) er annar handritshöfundur myndarinnar.
8. The Wrong Missy – 59 milljónir
Gamanmynd með hinum góðkunna David Spade, sem leikur hér hinn seinheppna Tim. Hann heldur að hann hafi boðið draumastúlkunni í hvataferð fyrirtækisins í Hawaii, en áttar sig svo á því að hann sendi stelpu sem hann hitti á martraðakenndu blindu stefnumóti, boð um að koma.
Með önnur hlutverk fara Lauren Lapkus, Nick Swardson, Geoff Pierson,
Jackie Sandler, Sarah Chalke, Rob Schneider og Chris Witaske.
9. The Platform – 56 milljónir
Spænskur tryllir sem gerist í óvenjulegu fangelsi með fleiri hundruð föngum. Prísundin er byggð upp eins og gríðarstór hola, brotin upp með mörgum hæðum og sitja tveir fangar á hverri hæð. Á hverjum degi svífur sviðspallur á milli hæðanna, sem útlit er fyrir að geri meiri skaða en gagn. Fangarnir dvelja einn mánuð á hverri hæð og flytjast frá einu stigi á annað af handahófi – og þá fær áhorfandinn almennilega tilfinningu fyrir villimennskunni og dulúðinni sem sveimar yfir þessu.
Við stjórnvölinn situr Galder Gaztelu-Urrutia og gengur kvikmyndin út á mannlega hegðun. Hvernig við bregðumst við aðstæðum, hvað við tökum með okkur frá þeim aðstæðum og hvað fær okkur til þess að breyta hegðun og viðbrögðum. Kvikmyndaáhugamenn hafa ótalmargir líkt The Platform við költ-myndina Cube frá 1999. Það er, jú, talið góðs viti.
10. The Perfect Date – 48 milljónir
Rómantísk unglingagamanmynd sem byggð er á skáldsögunni The Stand-In eftir Steve Bloom og trekkti að tæplega 50 milljón áhorfendum á fyrsta mánuði útgáfunnar.
Menntaskólaneminn Brooks reynir að safna pening fyrir áframhaldandi námi með því að útbúa app sem setur allt á hliðina í félagshringnum. Með þessu forriti býðst hverjum sem er að þykjast vera hinn fullkomni maki, fyrir hvern sem er og við hvaða tilefni sem er.