Christopher Walken segist aldrei ætla að setjast í helgan stein. Hann vonast til að vera enn að leika þegar hann verður orðinn 96 ára gamall.
Hinn 69 ára Óskarsverðlaunahafi hefur leikið í yfir eitt hundrað myndum á ferli sínum en ætlar sér ekkert að slaka á.
„Ég er mjög þakklátur fyrir hve vel hefur gengið. Ég er heilsuhraustur, ég hugsa vel um mig og vonandi get ég haldið áfram lengi í viðbót,“ sagði Walken.
„Uppáhalds leikarasagan mín er af John Gielgud. Þegar hann var 96 ára eða eitthvað, átti að halda stóra afmælisveislu fyrir hann en hann vildi það ekki því hann var á tökustað að leika í kvikmynd. Ég hugsa oft með mér: „Svona vil ég hafa þetta. Ég vil verða mjög gamall, við góða heilsu og enn starfandi“,“ sagði Walken við tímaritið Shortlist en hann lék síðast í Seven Psychopaths.