Vonarstræti eftir Baldvin Z hlaut aðalverðlaunin á Norrænum kvikmyndadögum sem haldnir eru árlega í Lübeck, Þýskalandi. Þorsteinn Bachmann, einn aðalleikara Vonarstrætis, veitti verðlaununum viðtöku. Þetta segir í fréttatilkynningu frá Kviðkmyndamiðstöð Íslands.
Dómnefndin var afar hrifin af leikurum Vonarstrætis og sagði meðal annars:
„The originality and mastery of the cast is what really makes this film stand out. The actors give us an enthralling portrayal of deep humanity in the face of a cold, uncaring society. The dramatic arc of images, with its novelistic quality, charts in an unusual and gripping way a cross-section of lives“.
Vonarstræti er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2015. Verðlaunaafhendingin mun fara fram þann 22. febrúar 2015 og allar tilnefningar verða kunngjörðar 15. janúar. Þá kemur í ljós hvort Vonarstræti verði tilnefnd til Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmynd á erlendu tungumáli.
Vonarstræti hefur m.a. hlotið góðar viðtökur á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og Zurich Film Festival, þar sem Hera Hilmarsdóttir hlaut sérstök dómnefndarverðlaun fyrir leik sinn í myndinni. Þá er Vonarstræti ein af 50 myndum sem koma til greina sem mynd ársins á evrópsku kvikmyndaverðlaununum (EFA).
Hross í oss, sem nýlega vann kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs og varð þar með fyrst íslenskra kvikmynda til að hlotnast sá heiður, er einnig ein af 50 myndum sem koma til greina sem mynd ársins á evrópsku kvikmyndaverðlaununum. Tilnefningar til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna verða kunngjörðar þann 8. nóvember næstkomandi og verðlaunaafhendingin fer svo fram í Riga í Lettlandi þann 13. desember.
Eins og sjá má hefur íslenskum myndum vegnað vel á alþjóðavettvangi upp á síðkastið. Fleiri dæmi um það eru heimildamyndin Salóme, sem var valin besta norræna heimildamyndin á Nordisk Panorama og varð þar með fyrsta íslenska heimildamyndin til að hljóta þann heiður og stuttmyndin Ártún var valin besta leikna stuttmyndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago og hlaut Gullna Skjöldinn að launum.