Fast and Furious stjarnan Vin Diesel hefur skrifað undir samning um að leika í nýrri spennu-grínmynd, Muscle, eða Vöðvi. Leikarinn hefur síðustu ár gert það gott sem hasarleikari, í myndum eins og Fast and Furious seríunni, The Chronicles of Riddick, og í xXx kvikmyndunum, í hlutverki Xander Cage.
Framleiðendur, STXfilms, vonast til að Muscle geti orðið að nýrri metsöluseríu. “Ég hef þekkt Vin í meira en áratug eftir að hafa unnið með honum að Fast and Furious, og ég er spenntur að sjá hann aftur í þessum gír,” sagði Adam Fogelson forstjóri STXfilms. “Muscle verður fullkomin blanda af spennu og gríni, sem er nákvæmlega það sem aðdáendur leikarans bíða spenntir eftir að sjá, og við teljum að þetta verði mögulega ný og vinsæl sería.”
Enginn leikstjóri hefur enn verið ráðinn að verkefninu, né heldur hefur frumsýningadagur verið ákvðeinn. Sama má segja um söguþráð, ekkert er enn vitað um hann. Þá hafa aðrir leikarar ekki verið tilkynntir. Vin, sem er 50 ára gamall, er með röð mynda á dagskránni hjá sér, þar á meðal er hlutverk Dominic Toretto í Fast and Furious 9, sem verður frumsýnd árið 2020. Þá er xXx 4 í vinnslu. Nýjustu myndir hans eru Guardians of the Galaxy Vol. 2 og Avengers: Infinity War, en þar talar hann fyrir Groot.