Þeir vitleysingar í hljómsveitinni Wyld Stallyns, Bill Preston og Ted Logan, gætu verið aftur á leiðinni upp á hvíta tjaldið ef allt gengur vel. Keanu Reeves var í viðtali við The Independent í vikunni og staðfesti þar að handritið fyrir þriðju Bill & Ted myndina væri fullklárað: „Já, handritið er komið og það er gott, við erum bara núna að púsla því saman.“
Á svipuðum tíma birti samleikari hans úr myndunum, Alex Winter, þetta á twitter-síðu sinni: „Handritið tilbúið? Klárt. -Við elskum það? Klárt. -Græna ljósið? Erum að vinna að því!
Fyrir þá sem ekki vita, þá fylgdu Bill & Ted myndirnar tvær (Excellent Adventure og Bogus Journey) þeim félögum þar sem þeir lentu í djúpsteiktu tímaflakki og börðust við illa klóna. Myndirnar hafa safnað að sér svokölluðum költ-status í hátt í 20 ár núna og eru þekktar fyrir að keyra fáranlega absúrdleika þeirra beint í jörðina, sem betur fer. Ekkert hefur verið staðfest varðandi sögu þriðju myndarinnar eða hvað hún mun koma til með að heita, en í apríl síðastliðnum vildi Reeves meina að hún gæti fjallað um tilraun Bill og Ted til að skrifa „lagið sem bjargar heiminum“. Einnig mun tímaflakk koma aftur við sögu samkvæmt Winters, en að sögn þá munu þeir Sókrates og Billy the Kid snúa aftur, ásamt því að Eddie Van Halen gæti látið sjá sig.
Eins og áður var sagt þá leitar verkefnið nú að stúdíói sem er tilbúið að skella græna ljósinu á það. Vonum bara að myndin fái að baða sig í fáranleikanum eins og forverar hennar.