Hasarhetjan Keanu Reeves hefur tekið að sér aðalhlutverkið í myndinni Replicas eftir leikstjórann Tanya Wexler, en myndin kemur næst á eftir síðustu mynd leikstjórans Hysteria, sem sló í gegn.
Um er að ræða vísindatrylli sem fjallar um taugasérfræðing sem missir alla fjölskyldu sína í bílslysi. Hann ákveður að gera allt sem hann getur til að vekja þau aftur til lífsins, jafnvel þó að það þýði að hann þurfi að etja kappi við rannsóknarstofu í eigu hins opinbera, öflugt lögreglulið, og eðlislögmálin sjálf.
Tökur eiga að hefjast næsta vor, 2015.
Reeves er ekki ókunnugur heimi vísindaskáldskaparins, en hann er líklega best þekktur fyrir hlutverk sitt sem Neo í Matrix þríleiknum. Hann leikur þessa stundina í myndinni John Wick, sem frumsýnd var um síðustu helgi í Bandaríkjunum við góðar undirtektir, en myndin var sú önnur mest sótta í landinu þá helgina.
„Við hrifumst af því að spyrja spurningarinnar „hve langt gengur maður til að bjarga fjölskyldu sinni“ og setja smá vísindaskáldsagnasnúning á það. Keanu er hokinn af reynslu er kemur að svona myndum og við bíðum spennt eftir að vinna með honum,“ sagði framleiðandinn Lorenzo di Bonaventura í yfirlýsingu, en hann vann með leikaranum í Matrix þríleiknum.