Vefmiðillinn The Hollywood Reporter greinir frá því að handritshöfundurinn Karl Gadjusek hafi verið ráðinn til að skrifa uppkast að handriti víkingamyndarinnar Viking, sem Baltasar Kormákur mun leikstýra.
Í fréttinni segir að myndin muni fjalla um flutning írskra þræla af Norskum vígamönnum. Annars er lítið vitað um söguþráð myndarinnar, nema heyrst hefur að yfirbragð hennar verði í stíl við Apocalypto og Braveheart, að því er Variety kvikmyndaritið greinir frá.
Síðasta verkefni Gadjusek var endurritun á handriti myndarinnar Oblivion eftir Joseph Kosinski, en það er vísindaskáldsaga. Einnig skrifaði hann uppkastið að næstu mynd Joel Schumacher, Trespass, sem frumsýnd verður nú í haust.
Framleiðandi myndarinnar er Working Title en ekki er búið að tilkynna hvenær tökur hefjast, enda myndin ekki komin langt í framleiðsluferlinu.

