Verður Mickey í Sin City 2?

Loksins! Sjö árum og þremur lélegum barnamyndum síðar frá Robert Rodriguez er langþráða Sin City framhaldið komið í framleiðslu. Reiknað er með því að myndin hefji tökur snemma á næsta ári en stóra spurningin sem margir hafa velt fyrir sér er hvort Mickey Rourke snúi aftur eða ekki. Þeir sem sáu fyrstu myndina ættu ekki að hika við það að vilja fá hann aftur, sérstaklega þar sem um forsögu er að ræða (byggð að hluta til á bókinni A Dame to Kill For – fyrir þá sem þekkja þetta).

„Það er spurning,“ segir Rourke í viðtali við ComingSoon.net. „Það veltur allt á því hversu mikið þeir vilja mig. Ég er hrifinn af karakternum en ég er með innilokunarkennd. 13 til 14 tímar sem fara bara í förðunina er ekker grín. Allt þetta latex og lím fá mig til að klæja í augun.“

Augljóslega er um peningaatriði að ræða. Vonum að allt blessist á endanum. Samkvæmt bókinni sem myndin verður að hluta til byggð á eiga báðir Clive Owen og Mickey Rourke að snúa bökum saman. Ekki hljómar það nú illa.