Eins og við sögðum frá fyrir ekki löngu síðan þá er von á endurræsingu á Vacation myndinni National Lampoon´s Vacation, frá árinu 1983, en tökur á myndinni áttu að hefjast í júlí nk.
Handritshöfundarnir John Francis Daley og Jonathnan Goldstein ætluðu að bregða sé á bakvið tökuvélina í fyrsta skiptið og leikstýra myndinni, ásamt því að skrifa handritið, Ed Helms ætlaði að leika aðalhlutverkið, hlutverk Rusty Griswold, og Christina Applegate var orðuð við hlutverk eiginkonu Rusty. Meira að segja var búið að staðfesta að upprunalegu aðalleikararnir Chevy Chase og Beverly D’Angelo myndu snúa aftur í aukahlutverkum.
Nú hefur allt verið sett á ís vegna listrænna árekstra, að því er The Hollywood Reporter greinir frá.
Samkvæmt heimildum sem greint er frá í frétt vefsíðunnar þá snýst ágreiningurinn um það að sumir vilji að myndin verði með R – stimpilinn, eins og upprunalega myndin, en aðrir hafi viljað hafa hana merkta PG-13 sem þýddi að yngri áhorfendur gætu komið á myndina en R – stimpillinn gæfi færi á.
Óljóst er hve fljótt er hægt að komast að samkomulagi um þetta, sumir segja að málið leysist innan fárra mánaða, en aðrir segja að þetta gæti þýtt frestun fram eftir árinu.
Myndin mun fjalla um það þegar Rusty fer með fjölskylduna í ferðalag. Chase og D´Angelo munu leika foreldra Rusty, Clark og Ellen, en hlutverkum þeirra er lýst sem gestahlutverkum e. Cameo.