Fyrsta stiklan úr hinni sannsögulegu bíómynd Lion, með þeim Dev Patel, Rooney Mara og Nicole Kidman, kom út í dag, en í myndinni er sögð saga manns sem fer til Indlands á ný, eftir að hann var ættleiddur og verið búsettur í Ástralíu í 25 ár.
Leikstjóri er Top of the Lake leikstjórinn Garth Davis, en myndin verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada í næsta mánuði. Hún kemur svo til Íslands í almennar sýningar 25. nóvember nk.
„Google Earth er mun þróaðari núna og einfaldari í notkun. Þegar Saaro var að leita að uppruna sínum á sínum tíma þá voru myndirnar skýjaðar, og óskýrar, og það tók óratíma að þysja inn til að skoða betur,“ sagði Patel við bandaríska dagblaðið USA Today, sem var fyrst til að birta stikluna.
„Þetta varð svo ótrúleg þráhyggja hjá honum, að leita að nál í heystakki. Þessi þrákelni og ákveðni í manninum var ótrúleg,“ bætir hann við.
Söguþráðurinn er þessi: Hér er sögð sönn saga Saroo Brierley og 25 ára ferðalags hans. Hinn fimm ára gamli Saroo Khan er ævintýragjarn piltur. Hann er spenntur fyrir því að hjálpa bróður sínum í öllum verkefnum, sem gætu fært fjölskyldunni smá meiri aur. Saroo fylgir Guddu hvert sem hann fer. Kvöld eitt skiljast drengirnir að á lestarstöð í heimabænum Madhya Pradesh, og Saroo endar 1.500 kílómetra í burtu í Calcutta.
Nú á hann í engin hús að venda í ókunnri borg og talar ekki tungumálið heldur. Hann bjargar sér á götunni þar til yfirvöld setja hann á munaðarleysingjahæli. Þegar ástralskt par ættleiðir hann, þá fer hann með þeim til Hobart í Tasmaníu. Það er ekki fyrr en Saroo fer frá eynni sem ungur Ástrali, að hann fer að velta fyrir sér hvað hafi orðið af hans fyrsta heimili og fjölskyldu. Hann byrjar að skoða gervihnattamyndir á Google Earth, og finnur þar fyrstu vísbendinguna, og það er fyrsta skrefið í langri og erfiðri leit.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: