Topp 10 Möst: Með spennu og kómík að leiðarljósi

Nýjasta kvikmyndin frá Ólöfu Birnu Torfadóttur, Topp 10 Möst, er væntanleg í bíó þann 11. október en myndin segir frá listakonu sem ákveður að gera topp 10 lista yfir hluti sem hún vill gera áður en hún deyr. Með helstu hlutverk fara Helga Braga Jónsdóttir og Tanja Björk Ómarsdóttir.

Ólöf segir í samtali við Kvikmyndir.is að um sé að ræða spennandi vegamynd með kómísku og dramatísku ívafi. „Myndin segir frá Örnu, sem heldur af stað í ferðalag þar sem hún hyggst enda á austfjörðunum. Á sama tíma er eilífðarfanginn Mjöll búin að komast að því að barnsfaðir hennar býr á Egilsstöðum og vill að nýja konan ættleiði dóttur þeirra. Þá flýr hún úr fangelsinu og á bensínstöð á leið út úr bænum finnur hún sér far í bíl Örnu,” segir Ólöf.

„Atburðarásin dregur þessar stöllur í hið óvæntasta ferðalag og þarf dúóið að vinna saman við að ferðast þvert yfir landið og fylla út topp 10 möst listann góða.“

Einmanaleiki og samvera

Topp 10 Möst er önnur kvikmynd leikstjórans og höfundarins í fullri lengd en síðasta mynd hennar var gamanmyndin Hvernig á að vera klassa drusla frá 2021. Aðspurð um kveikiþráðinn og innblásturinn að nýja verki hennar segir Ólöf myndina svipa lauslega til þáttanna Afterlife, sænsku kvikmyndarinnar ‘Maður að nafni Ove’ með smá hint af ‘Thelmu & Louise’, eins og hún orðar það.

„Sagan er sett upp með spennu og kómík að leiðarljósi og í grunninn er þetta saga um mannlega tengingu og hvernig við þurfum öll á henni að halda. Að rífa sig upp úr daglegu amstri hversdagsins og stökkva á vit ævintýranna. Hvernig ein persóna sem birtist óvænt inní lífi þínu getur haft svo gríðarleg áhrif á framhaldið,‘’ segir Ólöf og bætir við að hugmyndin komi frá hennar persónulega hugarlífi; hvað hún var sjálf að ganga í gegnum þegar hún byrjaði að fikta við að setja hugmyndina saman.

„Það er alveg þungt megininntakið í sögunni sem fjallar um þennan einmanaleika og hvað manni líður eins og maður sé einn í heiminum þegar maður er að ganga í gegnum hluti sem maður heldur að enginn annar muni skilja. En ég sjálf díla við hlutina með húmor og mér finnst mjög gaman að geta sett alvarlega hluti fram með kómískum hætti, aðallega vegna þess að mér finnst það sitja meira eftir hjá fólki,” segir hún.

„Við erum svolítið forrituð til að geta hlegið að fáránlegum hlutum af því þeir eru svo sannir, svo situr það eftir á bakvið eyrað, hvað þetta líf sem við eigum er rosalega súrt á köflum og í raun hlægilegt.”

Stóri draumurinn á listanum

Topp 10 möst listinn er skemmtileg hugmynd sem Ólöf fær að leika sér töluvert með í efnistökum myndarinnar. Þegar hún er spurð hvaða hlutir væru á samskonar lista hjá henni segist hún vera með fullt af kostulegum hugmyndum hvað það varðar.

Ólöf á setti með Helgu Brögu og co.

„Sumt færi á listann sem mér hefur tekist að gera en annað eftir. Til dæmis svona skrítnar hugmyndir sem ég fæ af senum sem mér finnast ógeðslega fyndnar, að koma þeim í verk sem ég er að vinna í. Það er ein þannig skemmtileg sena í þessari mynd sem ég vil ekki segja frá samt, svo ég spoili ekki. Eitt af stærri hlutunum sem eru á listanum er að eignast kattabúgarð,” segir Ólöf.

„Þessa hugmynd fékk ég þegar Covid var að hætta og landið að opnast aftur. Þegar allt í einu voru fullt af eins og hálfs árs gömlum köttum gefins á Facebook. Ég hef alltaf viljað komast aftur í sveitina en ekki endilega með þessum búskap. Þetta yrði svona risastór hlaða, með einhverjum tveim hekturum af afgirtu landi í kring. Þú mátt koma og fá þér kaffi og kleinur og klappa kisunum, en það er strangt ættleiðingarferli, þar sem ég þarf læknisvottorð um ekkert ofnæmi í ættinni.

Þetta yrði sett upp þannig að 98,7% af kisunum sem þangað kæmu myndu verða þar gamlar og deyja, ef ég á að vera raunsæ þá verður það staðan.”

Hér að neðan má sjá veggspjalidið fyrir Topp 10 Möst: