Top Model endurfæðist

Raunveruleikaþátturinn America´s Next Top Model, sem flestir héldu að hefði runnið endanlega sitt skeið, mun snúa aftur á VH1 tónlistarstöðinni, aðeins einum mánuði eftir að framleiðslu var hætt hjá The CW. Þættirnir höfðu gengið í 12 ár samfleytt. Frá þessu greinir The Hollywood Reporter.

next

Helsta breytingin í þessari endurreisna þáttanna er að skapari og aðalstjarna, ofurmódelið Tyra Banks, mun ekki taka þátt, nema á bakvið tjöldin sem framleiðandi.

Þessi nýja þáttaröð, sem verður sú 23. í röðinni, verður því sú fyrsta sem ekki er stjórnað af Banks. Enn er óvíst hver mun stjórna þættinum, og hverjir dómarar verða.

Fjórtán þættir hafa verið pantaðir í þessari nýju þáttaröð, sem verður tekin upp í New York borg.

„Við erum himinlifandi yfir því að fá America´s Next Top Model á VH1 og vinna með CBS sjónvarpsstöðinni og Tyru Banks til að enduruppgötva þessa þáttaröð fyrir nýja kynslóð áhorfenda,“ sagði forstjóri VH1, Chris McCarthy í yfirlýsingu.

„Eftir að hafa skapað ótrúlegt, alþjóðlegt vörumerki, er ég meira en yfir mig spennt að þættirnir séu nú að endurfæðast,“ sagði Banks í yfirlýsingunni.