Fyrsta sýnishornið úr Snowpiercer, nýjustu bíómynd íslenska leikarans Tómasar Lemarquis er komið út. Um er að ræða spennu-bardagamynd með stórstjörnunum Chris Evans úr Captain America, Jamie Bell, Tilda Swinton, John Hurt og Ed Harris í helstu hlutverkum.
Tómas leikur hlutverk Egg-head.
Í stuttu samtali sem kvikmyndir.is átti við leikarann sagði hann að hlutverk sitt væri lítið, en gott. „Hann kemur inn á ákveðnum vendipunkti í myndinni, en ég á eftir að sjá lokaklippið,“ sagði Tómas.
Aðspurður segir hann að persóna sín sé með nokkrar textalínur í myndinni en myndin gangi þó meira út á spennu og hasar en texta.
Snowpiercer gerist í framtíðinni. Eftir misheppnaða tilraun til að koma í veg fyrir hnattræna hlýnun, þá drepur ný ísöld allt líf á plánetunni fyrir utan íbúa Snow Piercer, lestar sem ferðast um heiminn og er knúin áfram af dularfullri eilífðarvél. Stéttarskipting verður til innan lestarinnar en bylting kraumar undir niðri.
Leikstjóri myndarinnar er Joon-ho Bong sem Tómas segir að sé algjör snillingur eins og hann orðar það. Bong á að baki ýmsar myndir, þar á meðal myndina The Host, en skrímslið í þeirri mynd var einmitt á lista yfir 10 bestu skrímsli kvikmyndasögunnar í nýlegri samantekt sem birt var hér á kvikmyndir.is
Tómas var í átta daga við tökur á myndinni og segir að hún líti vel út. „Þetta er eiginlega byggt upp eins og hasarmynd. Ég hugsa að hún verði geggjuð.“
Spurður hvort að hann hafi unnið með helstu stjörnum myndarinnar segir Tómas að hann hafi verið með öllum aðalleikurunum í einni senu.
Tómas tekur nú þátt í hverju stórverkefninu á fætur öðru, en hann er nýbúinn í tökum á myndinni 3 days To Kill með stórleikaranum bandaríska Kevin Costner, en Tómas kláraði tökur á þeirri mynd fyrir fjórum dögum í Serbíu og segir að þær hafi gengið vonum framar.
Næsta verkefni Tómasar er svo þýsk sjónvarpsmynd í tveimur þáttum sem gerist á miðöldum.
Sjáðu sýnishornið úr Snowpiercer hér fyrir neðan: