Tökur eru hafnar á nýrri íslenskri kvikmynd, Undir trénu, eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson, sem áður hefur gert Á annan veg og París norðursins. Handritið skrifar Gunnar sjálfur ásamt Huldari Breiðfjörð.
„Þetta er samtímasaga úr Reykjavík um venjulegt fólk í tilgangslausu stríði hvað við annað,“ segir Grímar Jónsson framleiðandi í samtali við Morgunblaðið, en meðal þess sem deilt er um í myndinni er stórt og veglegt tré af tegundinni garðhlynur. Staðsetning trésins veldur því að heiftúðugar deilur myndast á milli fjölskyldnanna í myndinni sem búa hlið við hlið en tréð varpar skugga á sólpall annarrar fjölskyldunnar.
Í fréttinni kemur fram að myndin sé í grunninn dramatísk en í henni séu kómískir fletir og á köflum sé hægt að tala um spennumynd. Með aðalhlutverk fara Steindi Jr., Sigurður Sigurjónsson, Edda Björgvinsdóttir, Þorsteinn Bachmann og Selma Björnsdóttir.
Í fréttinni segir að tökur standi yfir næstu sex vikurnar og frumsýna eigi myndina öðruhvorumegin við sumarið 2017.