Tilfinningarnar báru fjölskyldumeðlimi stórsöngkonunnar Whitney Houston ofurliði þegar þeir sáu hana lifna við á hvíta tjaldinu í kvikmyndinni I Wanna Dance with Somebody, Þetta er haft er eftir leikstjóra myndarinnar í grein í breska blaðinu The Daily Telegraph.
Kvikmyndin verður frumsýnd hér á landi á annan í jólum, eða 26. desember nk.
Eins og segir í greininni var Houston flókin persóna. Hún óx frá því að vera algjörlega óþekkt upp í að vera frægasta söngkona í heimi. Röddin spannaði þrjár áttundir og söngur hennar hljómaði átakalaus og fagur. Hún var einn söluhæsti listamaður í heimi og sá mest verðlaunaði.
Ein söluhæsta ábreiðan
Ábreiða hennar frá 1992 af lagi sveitasöngkonunnar Dolly Parton, I Will Always Love You, varð ein söluhæsta smáskífa allra tíma. En eiturlyf settu mark sitt á rödd söngkonunnar sem lést árið 2012 aðeins 48 ára gömul.
Leikkonan sem leikur Houston í myndinni fannst eftir áheyrnarprufur um allan heim. Hún heitir Naomi Ackie og er BAFTA verðlaunuð bresk leikona.
Leikstjórinn, Kasi Lemmons, sagði við Telegraph að fjölskylda Houston hafi heillast af því hvernig Ackie náði að fanga anda Houston og bættu við “Það er eitthvað innan úr henni.”
Fullkomin í hlutverkið
Tónlistarfrömuðurinn Clive Davis, sem var einn stofnenda Arista Records, og samdi við Houston upphaflega, var einnig með stjörnur í augum þegar hann sá Ackie á hvíta tjaldinu. Hann sagði. “Hún er fullkomin í hlutverkið.”
Stanley Tucci fer með hlutverk Davis í kvikmyndinni.
Lemmons og Ackie horfðu á upptökur af Whitney klukkutímum saman, allt frá tónleikum til viðtala, til að læra hvert einasta smáatriði varðandi söngkonuna. “Hún þurfti að syngja eins og Whitney, anda eins og Whitney og negla það í hverri einustu töku.”
Vinsælar myndir
Ævisögulegar tónlistarmyndir hafa notið mikilla vinsælda upp á síðkastið. Framleiðandi og handritshöfundur I Wanna Dance With Somebody, hinn breski Athony McCarten, fjórfaldur Óskarsverðlaunahafi, gerði m.a. kvikmyndirnar The Theory of Everything, sem fjallaði um Stephen Hawking, og Bohemian Rhapsody, sem fjallaði um Freddie Mercury og hljómsveitina Queen.
Þá siglir Whitney myndin í kjölfar myndar Baz Luhrman um Elvis Presley sem frumsýnd var fyrr á árinu.