Manst þú ekki eftir hasarmyndinni Tveir á toppnum? Unglingamyndinni Trufluð tilvera eða Fjandakorninu? Hvað með Bekkjarfélagið? En gætir þú giskað á réttu bíómyndina út frá slagorðum (e. tagline) hennar?
Í nýjum þætti Poppkasts með Nönnu Guðlaugardóttur og Tómasi Valgeirs er farið yfir víðan sarp af stórum og misfrægum orðum með eldhressum og frussufyndnum árangri. Vissulega eru það stór orð en þá er aðeins ein leið til að meta það betur.
„Nú skal tala í tungum, slöggum og slæmum þýðingum og slást um slagorðin. Nanna leggur þraut fyrir Tómas þar sem hún Google-þýðir ýmis misþekkt slagorð (/slagyrði?) úr kvikmyndum. Þá er farið dýpra og kannaður sarpur þýðinga og titla sem hafa brennimerkt sig í okkar séríslensku kúltúrssögu,“ segir í lýsingu þáttarins að neðan.
Bíóhlaðvarpið Poppkast hóf göngu sína í vetur, en þar ræða þau Nanna og Tómas alls kyns kvikmyndatengd málefni út og inn. Á meðal umfjöllunarefnis má nefna ítarlegar greiningar á kvikmyndunum The Matrix Resurrections, Avatar: The Way of Water, Babylon, Justice League, Everything Everywhere All at Once og sjónvarpsþættina Black Mirror.
Þættirnir eru aðgengilegir á helstu hlaðvarpsveitum, á meðal þeirra eru Spotify, Apple Podcasts, Google Podcasts, Stitcher ofl.