Upphaflega átti gamanmyndin Ted 2, eftir leikarann, leikstjórann og handritshöfundinn Seth MacFarlane, með Mark Wahlberg í aðalhlutverkinu, og frumsýnd var hér á landi fyrr í vikunni, að fjalla um bangsann Ted og félaga hans John, sem Wahlberg leikur, á ferð yfir Bandaríkin þver og endilöng með sendingu af grasi. Því handriti var hinsvegar hent í ruslið því sagan þótti of lík sögunni í myndinni We´re the Millers.
MacFarlane segir frá þessu í samtali við kvikmyndaritið Variety.
MacFarlane fékk grænt ljós frá Universal kvikmyndaverinu um gerð framhalds á hinum óvænta smelli Ted, eftir að sú mynd þénaði 550 milljónir Bandaríkjadala í bíó um heim allan árið 2012. Myndin varð þar með aðsóknarmesta bannaða gamanmynd ( R rated ) allra tíma.
MacFarlane fékk síðan núverandi hugmynd að sögu myndarinnar, þegar hann var að vinna við tökur á mynd sinni A Million Ways to Die in the West, þegar hann las bók John Jakes, North and South, en þar er sagt frá fyrsta afrísk-ameríska þrælnum sem fór í mál til að krefjast frelsis, árið 1847. Þetta leiddi til pælinga hjá honum um hvernig það liti út ef Ted færi að berjast fyrir réttindum sínum.
Ted 2 er merkileg fyrir það leiti m.a. að hún er fyrsta framhaldsmyndin sem leikarinn vinsæli Mark Wahlberg leikur í.
„Mín þumalputtaregla er að ef ég tel að hægt sé að gera betur en í upphaflegu myndinni, þá er það þess virði,“ sagði Wahlberg í samtali við Variety.
Hér má lesa dóm Variety um myndina.