Sýningum á áttundu þáttaröðinni um fjöldamorðingjann Dexter hefur verið flýtt um þrjá mánuði í Bandaríkjunum.
Þættirnir áttu upphaflega að hefja göngu sína í september en hefjast þess í stað í júní. Ekkert er vitað um ástæðuna fyrir þessari breytingu.
Orðrómur hefur verið uppi um að þetta verði síðasta þáttaröðin en framleiðendurnir hafa ekkert viljað láta hafa eftir sér um það.
Sem fyrr verður Michael C. Hall í hlutverki Dexter. Hann hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til Emmy-verðlaunanna fyrir hlutverkið en aldrei borið sigur úr býtum. Fimm sinnum hefur hann verið tilnefndur til Golden Globe-verðlaunanna og einu sinni unnið.