Svörtu sandar II: Það sem er ekki sagt gerðist ekki

Fyrsta sýnishornið úr annarri seríu af sjónvarpsþáttunum Svörtu söndum er komið í loftið ásamt veggspjaldi en þættirnir hefja göngu sína þann 6. október næstkomandi. Um er að ræða beint framhald af fyrri seríu, en þráðurinn er tekinn upp fimmtán mánuðum eftir atburðina undir lok síðustu þáttaraðar.

Í fyrstu seríu var fjallað um dularfullt dauðsfall ferðamanns á Íslandi. Þegar unga lögreglukonan Aníta byrjar að rannsaka málið flækist hún inn í mun stærra mál sem teygir anga sína mörg ár aftur í tímann. Þáttaröðin var framleidd af Glassriver og sýnd á Stöð 2 og er hið sama uppi á teningnum nú.

Baldvin Z, einn af framleiðendum, höfundum og leikstjórum seríunnar, segir í samtali við Vísi að mörgum spurningum sé enn ósvarað í söguþræði þáttanna. Hann segir að Svörtu sandar 1 og 2 séu eitt heildstætt verk.

„Fyrir þá sem horfðu á seríu eitt, þá er mörgum spurningum enn ósvarað sem eru í raun og veru að fara að verða viðfangsefni seríu tvö. Þau sem þekkja seríu eitt vita nákvæmlega hvað ég er að tala um.“

Aðrir leikstjórar syrpunnar eru Álfheiður Marta Kjartansdóttir og Erlendur Sveinsson. Með helstu hlutverkin fara þau Aldís Amah Hamilton, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Emma Hafsteinsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir og Pálmi Gestsson. Auk þeirra Aldísar og Baldvins eru handritshöfundarnir þeir Ragnar Jónsson og Elías Kofoed-Hansen.

Baldvin bætir við að með seinni seríunni verði sögunni því lokað. Baldvin segist vilja hvetja alla sem enn eigi eftir að sjá seríu eitt til að láta verða af því. „Og þau hin sem eru búin að sjá hana þau ættu að horfa aftur!“