Heimildarmyndin Force Of Nature: The David Suzuki Movie verður sýnd á RIFF 2011. Myndin er samantekt á ævi og hugmyndum kanadíska vísindamannsins og umhverfissinnans David Suzuki og er henni leikstýrt af Vestur-Íslendingnum Sturlu Gunnarssyni. Báðir sækja þeir RIFF heim í tilefni af sýningu myndarinnar.
„Suzuki, sem er líklega þekktastur fyrir sjónvarpsþætti sína, The Nature Of Things sem sýndir hafa verið í ríflega 40 löndum, hefur barist ötullega fyrir því að þjóðir heims leggi sitt af mörkum til að snúa við þeim loftslagsbreytingum sem orðið hafa á jörðinni síðastliðin 20 ár eða svo. Sjálfbærni í nýtingu auðlinda og hreinir orkugjafar eru honum einnig hugleikin hugtök. Hann hefur gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir að draga lappirnar í þeim efnum,“ segir í frétt frá RIFF.
Suzuki lýsir myndinni sem samantekt á ævistarfi sínu, eins konar lokafyrirlestur með því sem hann vill koma til skila áður en hann fellur frá. Inn í myndina fléttast myndir og myndskeið fá áratugalöngum ferli hans svo úr verður eins konar ævisaga sem segir frá helstu viðburðum ævi hans, ásamt því að taka mið af þeim gríðarlegu breytingum sem orðið hafa á heiminum á þessum tíma, sem spannar um 70 ár.
Vestur-Íslendingurinn Sturla Gunnarsson er í hópi fremstu kvikmyndagerðarmanna Kanada og eftir hann liggja margrómuð verk, jafnt heimildarmyndir sem leiknar, kvikmyndir og sjónvarpsefni. Á meðal verka eftir hann má nefna AIR INDIA 182, BEOWULF AND GRENDEL, RARE BIRDS, SUCH A LONG JOURNEY, GERRIE & LOUISE og FINAL OFFER.
Sturla og Suzuki munu heimsækja Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík í tilefni af sýningu myndarinnar, og mun Suzuki ennfremur sitja málþing sem efnt verður til á meðan á dvöl hans stendur.